Hanna Birna Kristjánsdóttir nýtur fylgis 76,2% sjálfstæðismanna til að leiða lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í komandi alþingiskosningum. Þetta sýnir ný könnun MMR sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið.
Greint er frá þessu í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að forysta Hönnu Birnu gagnvart Illuga Gunnarssyni mótframbjóðanda hennar sé töluverð, en spurt var: Hverju eftirtalinna treystir þú best til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu? Af sjálfstæðismönnum treysta 76,2% Hönnu Birnu og 10% Illuga. 7,6% nefndu Guðlaug Þór Þórðarson.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík heldur eitt prófkjör fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö og verður það 24. nóvember.
Þau Hanna Birna og Illugi sækjast bæði eftir fyrsta sætinu, Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson og Pétur Blöndal sækjast eftir öðru sæti.
Könnunin var gerð 9.-12. október og var netkönnun.