Hóta úrsögn úr lífeyrissjóði

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, hefur tjáð framkvæmdastjóra Festa lífeyrissjóðs, Gylfa Jónassyni, að ef sjóðurinn taki þátt í hlutabréfaútboði Eimskips muni félagsmenn verkalýðsfélagsins jafnvel flytja sig yfir í annan lífeyrissjóð.

Á vef Verkalýðsfélags Akraness kemur fram að Vilhjálmur hafi tjáð Gylfa að ef lífeyrissjóðurinn Festa taki þátt í kaupréttarútboði á fyrirtækinu Eimskip muni félagið grípa til róttækra aðgerða sem gætu verið fólgnar í því að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem eru aðilar að Festu lífeyrissjóði gengju í annan lífeyrissjóð.

Gylfi tjáði Vilhjálmi að hann hefði sent skilaboð út til stjórnarmanna sjóðsins í gær varðandi þetta útboð og mun niðurstaða liggja fyrir klukkan 14 í dag um hvað sjóðurinn muni gera varðandi þetta útboð.

„Það er alveg morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun og ætlar sér ekki að sætta sig við að verið sé að fjárfesta í fyrirtæki sem ætlar að rétta lykilstjórnendum Eimskips kaupréttarsamninga á silfurfati á sama tíma og sjóðurinn hefur tapað 500 milljónum króna vegna gjaldþrots Eimskips á sínum tíma. En lífeyrissjóðirnir töpuðu á gjaldþroti Eimskips hátt í 15 milljörðum króna samtals og á þeirri forsendu meðal annars er það skylda lífeyrissjóðskerfisins að senda skýr skilaboð út til fyrirtækja um að sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum muni ekki sætta sig við að græðgisvæðingin skjóti aftur rótum inni í þessum fyrirtækjum.

 Ef það verður niðurstaðan eins og áður sagði að Festa lífeyrissjóður muni fjárfesta í þessu fyrirtæki mun Verkalýðsfélag Akraness boða til áríðandi fundar með sínum sjóðsfélögum þar sem því verður beint til félagsmanna að greiða inn í annan lífeyrissjóð. Hins vegar er tilfinning formanns sú að stjórn Festu muni verða við þessari beiðni VLFA og taka ekki þátt í þessu útboði en rétt er að minna á að formaður gerði þessa kröfu á sjóðinn í júlí síðastliðnum þegar það lá fyrir að þessir kaupréttarsamningar yrðu að veruleika,“ segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert