„Kominn tími fyrir harðar refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum í makrílstríðinu eftir að viðræðunum lauk í London í gær án niðurstöðu. Þessar tvær ræningjaþjóðir munu gjöreyða makrílstofninum vegna græðgi sinnar,“ segir skoski Evrópuþingmaðurinn Struan Stevenson á Facebook-síðu sinni í dag.
Eins og mbl.is hefur fjallað um lauk viðræðum strandríkja í London í gær án þess að samkomulag næðist um skiptingu makrílstofnsins. Lagasetning hefur nú tekið gildi innan Evrópusambandsins sem heimilar því að grípa til refsiaðgerða gegn ríkjum sem sambandið telur stunda ósjálfbærar veiðar á stofnum sem þau deila með því.
Óvíst er hvort gripið verði til slíkra refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum en því hefur hins vegar ítrekað verið hótað að til þess gæti komið bæði af hálfu Evrópusambandsins sjálfs og fulltrúa einstakra ríkja innan þess og hagsmunaaðila í sjávarútvegi í löndum eins og Skotlandi og Írlandi.