Sjúklingar áhyggjufullir

Smám saman hefur orðið til uppsafnaður vandi og ekki eðlileg …
Smám saman hefur orðið til uppsafnaður vandi og ekki eðlileg endurnýjun á tækjum og búnaði segir forstjórinn í pistli á vef LSH. mbl.is/Eggert

Vegna þeirr­ar fjöl­miðlaum­ræðu sem hef­ur átt sér stað um tækja­búnað á Land­spít­al­an­um hafa sum­ir sjúk­ling­ar haft sam­band og lýst yfir áhyggj­um af ör­yggi og gæðum þeirr­ar meðferðar sem veitt er. Þetta seg­ir Björn Zoëga, for­stjóri Land­spít­al­ans, í pistli sem er að finna á vef LSH.

„Ég hef áður sagt frá því að í að minnsta kosti ára­tug hafa fjár­veit­ing­ar á fjár­lög­um til end­ur­nýj­un­ar tækja­búnaðar verið of lág­ar og alls ekki í sam­ræmi við stærð og eðli starf­semi há­skóla­spítala eins og Land­spít­al­ans. Þannig hef­ur smám sam­an orðið til upp­safnaður vandi og ekki eðli­leg end­ur­nýj­un á tækj­um og búnaði,“ skrif­ar Björn.

Hann tek­ur hins veg­ar fram að spít­al­inn hafi notið góðs af gjaf­mildi ein­stak­linga og fé­laga­sam­taka sem stutt hafi „rausn­ar­lega við bakið á okk­ur og vær­um við í tölu­vert verri mál­um ef slíkt hefði ekki komið til“.

„Vegna þess­ar­ar opnu fjöl­miðlaum­ræðu á síðustu vik­um hafa sum­ir sjúk­ling­ar haft sam­band og eðli­lega haft áhyggj­ur af ör­yggi og gæðum þeirr­ar meðferðar sem veitt er. Þetta á sér­stak­lega við um meðferð með þeim tækja­búnaði sem mest hef­ur verið fjallað um, svo sem línu­hraðli sem notaður er til geislameðferðar krabba­meina og hjartaþræðing­ar­tækj­un­um,“ skrif­ar Björn.

Vongóður um að meiri fjár­mun­ir verði veitt­ir til spít­al­ans

Hann seg­ist enn­frem­ur vita að starfs­fólk spít­al­ans meti það hverju sinni af fag­mennsku hvort ekki sé ör­uggt og hættu­laust að nota tæk­in til meðferðar eða grein­ing­ar, eins og þau séu í dag.

„Hins veg­ar geta alltaf komið upp óvænt­ar bil­an­ir í svona flókn­um tækja­búnaði sem við höf­um og það á bæði við um ný tæki en auðvitað miklu frek­ar um mikið eldri tæki. Við á spít­al­an­um höf­um margoft komið því á fram­færi við stjórn­völd að þarna sé komið ekki að þol­mörk­um held­ur yfir þol­mörk og miðað við þá umræðu sem hef­ur verið á Alþingi og í fjöl­miðlum síðustu daga er ég vongóður um að eitt­hvert til­lit verði tekið til þessa og að veitt­ir verði meiri fjár­mun­ir í þenn­an mála­flokk a.m.k. á næsta ári,“ seg­ir for­stjór­inn.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert