Telur markílinn hafa áhrif á viðræður

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, og Steingrímur J. Sigfússon
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, og Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður LÍÚ, Adolf Guðmundsson, segir að hann efist ekki um að makrílmálið hafi haft áhrif á aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins. Þetta kom fram í ræðu Adolfs á aðalfundi LÍÚ.

„Á undanförnum árum hefur makríllinn gengið í miklum mæli í íslensku lögsöguna og í sumar mældust hér ein milljón og fimm hundruð þúsund tonn. Mikilvægt er að efla rannsóknir á áhrifum makrílsins á lífríkið og þá sérstaklega á grunnslóðinni.

Aðdáunarvert er hversu hratt íslenskur sjávarútvegur hefur náð góðum tökum á veiðum og vinnslu makrílsins með tilheyrandi verðmætaaukningu. Á síðasta ári var makríllinn sú fisktegund sem skilaði okkur næstmestum verðmætum einstakra fisktegunda.

Enn hefur ekki tekist að semja um skiptingu makrílstofnsins og hlutdeild Íslands í veiðunum. Makrílmálið er lýsandi dæmi um það hversu mikilvægur fullveldisréttur okkar er.

Ef við værum aðilar að Evrópusambandinu er ljóst að staða okkar væri veik. Íslensk stjórnvöld hafa staðið fast á rétti okkar sem strandríkis og ég hvet þau til að gera það áfram, þrátt fyrir aðildarumsóknina.

Það er umhugsunarvert af hverju íslensk stjórnvöld hafa ekki enn mótað samningsafstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum og hafið samningaviðræður um þetta mikilvæga mál.

Ég minni á að nú eru meira en þrjú ár liðin frá því að sótt var um aðild að sambandinu. Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að makrílmálið hafi ekki áhrif á aðildarviðræður Íslands og ESB er ég ekki í vafa um að svo sé,“ sagði Adolf í ræðu á aðalfundi LÍÚ í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert