„Við þurfum alþjóðlegt samkomulag sem mun tryggja sjálfbærni makrílstofnsins, nokkuð sem hefur því miður ekki verið raunin undanfarin fjögur ár þar sem Færeyjar og Ísland hafa úthlutað sér sjálfum kvóta með óábyrgum hætti. Það eru vonbrigði að viðræðurnar skiluðu ekki samkomulagi sem er ljóslega öllum aðilum málsins í hag.“
Þetta segir Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, í yfirlýsingu á heimasíðu skosku ríkisstjórnarinnar í kjölfar þess að viðræðum strandríkja um lausn makríldeilunnar lauk í London í gær án lausnar á henni.
„Einkum veldur þrjóska Færeyinga, sem halda áfram að setja fram alltof miklar kröfur, og óraunhæf afstaða þeirra áhyggjum,“ segir Lochhead og bendir á að stjórnvöld í Færeyjum hafi tekið sér fimm sinnum meiri makrílkvóta í ár en samið hafi verið um fyrir árið 2009. Þeir hafi hins vegar ekki getað veitt allan kvótann sjálfir og því boðið rússneskum skipum inn í lögsögu sína til þess að veiða hann.
„Boltinn er núna hjá þeim og ef viðræður halda áfram verða bæði Færeyingar og Íslendingar að koma aftur að borðinu með sanngjarna samningsafstöðu,“ segir Lochhead ennfremur og bætir við að þó að Skotar leggi áherslu á að ná samkomulagi á milli allra aðila málsins hafi Evrópusambandið loksins kynnt til sögunnar möguleika á að beita refsiaðgerðum vegna deilunnar.
„Ég vona að möguleikinn á refsiaðgerðum eigi eftir að fá Færeyinga og Íslendinga til þess að endurmeta afstöðu sína,“ segir Lochhead að lokum.