Veifuðu ekki reglugerðinni

„Það kom ekkert slíkt fram hjá þeim. Í raun og veru var ég sá eini sem færði þetta í tal að fyrra bragði. Ég benti þeim á það, svo það væri algerlega á hreinu, að það hjálpaði ekki þessum viðræðum að þessar hótanir væru hangandi yfir þeim.“

Þetta segir Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands í makríldeilunni, í samtali við mbl.is, spurður að því hvort fulltrúar Evrópusambandsins hefðu beitt nýrri reglugerð þess, sem heimilar sambandinu að beita refsiaðgerðum gegn ríkjum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar á sameiginlegum fiskistofnum, í viðræðum strandríkja um makrílinn sem lauk í London í gær.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, hafi lýst því yfir í aðdraganda fundarins að fulltrúar sambandsins myndu mæta til hans vopnaðir umræddri reglugerð til þess að setja aukinn þrýsting á Íslendinga og Færeyinga um að gefa eftir í deilunni.

„Ég tók það jafnframt skýrt fram að við tryðum því ekki fyrr en á reyndi að Evrópusambandið færi yfir þau mörk að halda ekki samninga og alþjóðlegar skuldbindingar með hugsanlegri beitingu á þessari reglugerð. En það breytti því ekki að skilaboðin sem hefðu borist frá einstökum þingmönnum innan sambandsins, aðildarríkjum og hagsmunaaðilum væru á þeim nótum að þetta væri vopn sem ætti að beita hart gegn Íslendingum í þessari deilu og það gerði það ómögulegt fyrir okkur að fara fram einhliða með einhverjar tilslakanir undir slíkum hótunum,“ segir Sigurgeir.

Fulltrúar Evrópusambandsins yrðu því að gera sér grein fyrir því að þetta væri vopn sem virkaði ekki til lausnar á makríldeilunni. Sigurgeir segir að samningamaður sambandsins hafi þá lýst því yfir að hann hefði ekki í hyggju að nefna umrædda reglugerð til sögunnar, hún væri ekki á hans könnu og yrði ekki tekin á dagskrá á fundinum af hans hálfu. Hann hafi ennfremur fullvissað íslensku fulltrúana um að Evrópusambandið myndi ekki fara í ólögmætar aðgerðir vegna málsins.

Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands í makríldeilunni.
Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands í makríldeilunni. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert