Meðalfallþungi sauðfjár í haust er talsvert meiri en í fyrra. Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að aukningin milli ára sé 0,5-1 kíló. Hann segir að um 1.700 færri lömb hafi verið lögð inn hjá Norðlenska í haust, vegna fjárskaðans á Norðurlandi, en samt verði framleiðslan í ár meiri en í fyrra vegna meiri fallþung.
Á síðasta ári nam heildarframleiðsla á lambakjöti tæplega 9.600 tonnum. Þá varð um 5% aukning milli ára. Margt bendir til að svipuð framleiðsluaukning verði í ár, en það þýðir að framleiðslan fer yfir 10 þúsund tonn. Fara þarf aftur til ársins 1988 til að finna jafnmikla framleiðslu á einu ári.
Sigmundur segir að í haust hafi verið lögð inn í sláturhús Norðlenska um 1.700 færri lömb en áætlað var. Skýringin sé fjárskaðinn sem varð í óveðrinu 10. september.
Eins og kom fram á mbl.is í gær er talið að 4.500-5.500 lömb og ær hafi drepist á Norðurlandi í óveðrinu og í kjölfar þess. Tjónið varð mest í Þingeyjarsýslum, en Vignir Sigurðsson, framkvæmdastjórn Búgarðs ráðgjafarþjónustu, segist áætla að um 2.500 hafi drepist.
Í fréttinni kom fram að sauðfjárbændur fengju um 14.000 krónur fyrir lamb sem lagt væri inn í sláturhús. Hið rétta er að sláturleyfishafar greiða bændum um 8.500 kr. fyrir meðallamb (en meðallamb er um 16 kg). Til viðbótar fá bændur beingreiðslur úr ríkissjóði sem skilar þeim um 14.000 krónum. Beingreiðslurnar eru greiddar á kíló af fullvirðisrétti. Engar beingreiðslur eru greiddar á það sem framleitt er umfram fullvirðisrétt.
Sigmundur segir að talsvert mikill munur sé milli bæja hvað meðalgreiðsla á lamb er mikil. Munurinn getur verið nokkur þúsund krónur á lamb milli þeirra sem skila mestum afurðum og þeirra sem skila minnstum afurðum. Sauðfjárbændur sem hafa náð mestum árangri í ræktun á fjárstofni sínum hafa því mun meiri arð af búrekstrinum en þeir sem ekki hafa lagt sömu áherslu á ræktun.