Telur að fjölga þurfi í skattaeftirlitinu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég tel að það sem þurfi líka að gera sé að fjölga í skattaeftirlitinu og það hefur nú verið reiknað út að það skilar sér margfalt til baka ef það er fjölgað í skattaeftirlitinu til þess að taka á þessum málum.“

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í umræðum á Alþingi í morgun um skattaundanskot en hún var þar að svara fyrirspurn frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um það með hvaða hætti stjórnvöld ætluðu sér að taka á því vandamáli. Sagði Ragnheiður Elín að skattahækkanir væru ekki til þess fallnar að stuðla að lausn vandans og bitnuðu fyrst og fremst á þeim sem greiddu sína skatta samviskusamlega.

Jóhanna sagði margt hafa verið gert í þeim efnum í tíð núverandi ríkisstjórnar og nefndi sem dæmi átak þar sem virðisaukaskattur hefði verið endurgreiddur af vinnu iðnaðarmanna vegna viðhaldsverkefna sem hefðu reynst vel og fyrir vikið verið ítrekað framlengd. Þá sagðist hún telja að ríkisstjórnin hefði haldið skynsamlega á ríkisútgjöldum þegar kæmi að niðurskurði og óhjákvæmilegri hækkun skatta.

„Það er alveg ljóst að við höfum þurft að fara í skattahækkanir, fyrr má nú vera þegar við vorum með 218 milljarða halla þegar við tókum við. Það varð með einhverjum hætti að taka á þessu,“ sagði Jóhanna og sagðist sammála Ragnheiði Elínu um að best væri að hafa skattkerfið sem einfaldast en það yrði líka að vera sem réttlátast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert