Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmum sem fram fer 24. nóvember nk. og sækist hann eftir stuðningi í 2. sæti í öðru hvoru kjördæminu, Reykjavík norður eða Reykjavík suður.
„Undanfarin sex ár hef ég skipað 2. sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður en áður átti ég um árabil sæti í borgarstjórn Reykjavíkur, var m.a. oddviti VG í borgarstjórn og forseti borgarstjórnar.
Á þessu kjörtímabili gegni ég formennsku í utanríkismálanefnd Alþingis en hef jafnframt setið í allmörgum þingnefndum, m.a. allsherjarnefnd, efnahags- og skattanefnd, fjárlaganefnd, menntamálanefnd, viðskiptanefnd og nú einnig í velferðarnefnd. Áður sat ég í samgöngunefnd og umhverfisnefnd.
Þá gegni ég einnig formennsku í þingskapanefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða þingsköp Alþingis og efla og styrkja stöðu Alþingis og verða tillögur nefndarinnar í þeim efnum væntanlega lagðar fram fyrir vorið. Í alþjóðastarfi gegni ég m.a. formennsku í þingmannanefnd EFTA og formennsku í mennta- og menningarmálanefnd Norðurlandaráðs,“ segir í tilkynningu frá Árna Þór.