„Við siglum núna að landsmeðaltalinu fyrir atvinnuvegafjárfestingu á árunum 1990 til 2012. Við náum því á næsta ári og förum jafnvel aðeins upp fyrir það ... En við erum á réttri leið í þessum efnum og það ber að viðurkenna,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra á aðalfundi LÍÚ í Reykjavík í gær.
„Því það hjálpar okkur ekkert að gráta okkur í sæng á hverju kvöldi og láta ekki einu sinni eftir okkur að gleðjast þó yfir því sem þróast í rétta átt,“ sagði Steingrímur en fjárfesting hefur sem kunnugt er verið lítil í sögulegu samhengi frá efnahagshruninu.
Hann vék svo að samspili veiks gengis og sterkrar stöðu útflutningsgreina.
„Almennt hefur afurðaverð verið hátt og auðvitað hefur veik krónan leitt til góðrar afkomu í útflutnings- og samkeppnisgreinum og það hefur skipt sköpum fyrir Ísland við að hafa sig út úr þessu. Varðandi uppsjávarfiskstofna að þá eru þeir svona í meðaltali í góðu standi. Því miður eru þar blikur á lofti.“