Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, fagnar frumkvæði Íslandsbanka um að hefja endurreikning bílalána. Alls sé um sex þúsund lán að ræða í Íslandsbanka einum. Segist hann vonast til þess að fleiri fjármálastofnanir fylgi í kjölfarið og endurgreiði fólki það sem af því var tekið með ólögmætum hætti.
Að sögn Helga er þetta í samræmi við þau sjónarmið sem hann hafi sett fram í kjölfar dóms Hæstaréttar frá því í síðustu viku um ólögmæt gengistryggð lán sem lántakar hafa greitt af í samræmi við gildandi skilmála á hverjum tíma.
Helgi tekur hins vegar fram að ljóst sé að ekki sé hægt að endurreikna strax einhverja lánaflokka þar sem enn ríki óvissa um þá.