Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 23 ára íraskan karlmann í þrjátíu daga fangelsi fyrir skjalafals. Maðurinn framvísaði fölsuðum skilríkjum þegar hann kom til landsins frá Kaupmannahöfn 19. október sl.
Skilríkin sem maðurinn framvísaði voru grískt kennivottorð á nafni 28 ára karlmanns. Kennivottorðið reyndist breytifalsað, þ.e. skipt hafði verið um mynd í því.
Maðurinn játaði brot sitt og með hliðsjón af dómaframkvæmd í sambærilegum málum var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem maðurinn hefur sætt frá 23. október sl.
Þá er manninum gert að greiða þóknun verjanda síns, 125.500 krónur.