Lagði hornstein að Búðarhálsvirkjun

Forseti Íslands lagði í dag hornstein að Búðarhálsvirkjun en áætlað er að virkjunin komist í rekstur í árslok 2013. Forstjóri Landsvirkjunar sagði við þetta tilefni að ljóst væri að miklar væntingar væru gerðar til Landsvirkjunar í íslensku samfélagi og að fyrirtækið myndi gera sitt besta til að standa undir þeim væntingum.

„Búðarhálsvirkjun mun gera okkur enn betur kleift að starfa í samræmi við hlutverk Landsvirkjunar, að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi,“ sagði Hörður, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Fram kemur að fjölmenni hafi verið við lagningu hornsteins Búðarhálsvirkjunar sem fór fram í dag við hátíðlega athöfn í stöðvarhúsinu. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, setti athöfnina. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lagði hornsteininn og naut við það aðstoðar Pálmars Óla Magnússonar, framkvæmdastjóra framkvæmdasviðs, og Kristins Eiríkssonar, staðarverkfræðings Landsvirkjunar.

Auk forseta Íslands fluttu ávörp við athöfnina Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Bryndís Hlöðversdóttir, formaður stjórnar Landsvirkjunar, og Guðlaugur V. Þórarinsson, verkefnastjóri Búðarhálsvirkjunar, sem lýsti framkvæmdum.

Í ávarpi sem Bryndís Hlöðversdóttir, formaður stjórnar Landsvirkjunar, flutti sagði hún að Landsvirkjun hefði mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi. Bryndís lagði áherslu á hve vel hefði tekist til með framkvæmdina og góða samvinnu verkkaupa og verktaka sem hefði skilað sér í vel skipulögðu vinnusvæði þar sem öryggismál eru í forgrunni. „Það er líka vert að geta þess hversu mikil eining hefur verið um byggingu Búðarhálsvirkjunar og þannig hefur hún stutt við markmið Landsvirkjunar um aukna sátt um starfsemi fyrirtækisins í samfélaginu. Framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun hafa í reynd verið til fyrirmyndar í alla staði,“ er haft eftir Bryndísi.

Upphaflega hófust framkvæmdir við Búðarháls árið 2001 en þeim var síðar slegið á frest. Á árinu 2010 hófust framkvæmdir að nýju. Áætlað er að virkjunin verði komin í rekstur fyrir árslok 2013. Áætlað afl virkjunarinnar verður um 95 MW og orkugeta allt að 585 GWst á ári. Heildarársverk sem skapast vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar yfir allan framkvæmdartímann eru á milli 700 og 800.

Búðarhálsvirkjun verður rekin samhliða öðrum virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en þar eru fyrir sex aflstöðvar í rekstri. Með tilkomu Búðarhálsvirkjunar má segja að búið sé að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Sultartanga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka