Spáð hríðarveðri um vestanvert landið

Spáð er hríðarveðri um vestan- og norðvestanvert landið í kvöld.
Spáð er hríðarveðri um vestan- og norðvestanvert landið í kvöld. mbl.is/Rax

Vegagerðin varar við mikilli hálku um vestanvert og norðvestanvert landið í kvöld og í nótt. Nokkur óhöpp hafa orðið vegna hálkunnar, en verið er að salta helstu leiðir eins og Vatnaleið og Holtavörðuheiði.

Spáð er vaxandi úrkoma um vestan- og norðvestanvert landið í kvöld og hægt hlýnandi veðri. Síðar í kvöld er reiknað með hríðarveðri og takmörkuðu skyggni s.s. á Holtavörðuheiði, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði með V- og SV-átt, um 10-15 m/s. Eins er fram á kvöld hætt við staðbundinni og lúmskri ísingu í uppsveitum sunnanlands og í Borgarfirði þegar úrkoma fellur á frostkalda vegina.

Flughált á vegum

Hálka er á Hellisheiði en flughált á Mosfellsheiði. Hálkublettir eru á Þingvallavegi og Lyngdalsheiði og einnig eru hálkublettir nokkuð víða á Suðurlandi.

Flughált er á Holtavörðuheiði og hálka efst í Borgarfirði, á Fróðárheiði, Vatnaleið, á sunnanverðu Snæfellsnesi og Mýrum. Hálkublettir eru í Borgarfirði, Bröttubrekku og Svínadal.

Á Vestfjörðum er flughált á Klettshálsi, hálka á Kleifaheiði, Mikladal, Hálfdán, Dynjandisheiði og á Hrafnseyrarheiði annars eru hálkublettir á fjallvegum.

Hálka eða hálkublettir eru mjög víða á Norðurlandi en flughált er á Vatnsskarði og austur í Öxnadal. Einnig er flughált á leiðinni frá Sauðárkróki í Ketilás

Á Austurlandi er hálka á Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði en einnig eru sumstaðar hálkublettir.

Suðaustanlands er snjóþekja frá Vík í Kirkjubæjarklaustur og hálkublettir austur að Höfn. Éljagangur er frá Öræfum austur að Höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert