Þátttakendur í nýlegri viðhorfskönnun um utanvegaakstur töldu að algengasta ástæðan fyrir utanvegaakstri væri sú að ökumönnunum sem hann stunduðu þætti gaman að aka utan vega eða þætti það spennandi. Þegar þátttakendur sem höfðu ekið utan vega voru spurðir um ástæður þess að þeir stunduðu utanvegaakstur breyttust aftur á móti svörin. Þeir sögðu aksturinn mun fremur óviljaverk eða að um leyfilegan utanvegaakstur væri að ræða.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í meistaraprófsritgerð Kristínar Þóru Jökulsdóttur, í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Meginefni ritgerðarinnar byggist á viðhorfskönnuninni.
Kristín Þóra bendir á að munurinn á svörum þeirra sem ekki stunda utanvegaakstur og þeirra sem aka utan vega geti verið sá að þeir sem aka utan vega vilji ekki viðurkenna að þeir geri það sér til skemmtunar, enda um ólöglegt athæfi að ræða, til að réttlæta sína eigin hegðun.
Könnun Kristínar Þóru er fyrsta rannsóknin þar sem á kerfisbundinn hátt er reynt að komast að ástæðum utanvegaaksturs og viðhorfum almennings til hans.
Svörin í könnuninni leiddu í ljós að yfir 90% Íslendinga hafa tekið eftir ummerkjum um akstur utan vega á ferðum sínum um landið. Yfir 60% hafa séð einhvern aka utan vega og nálægt 50% þekkja einhvern sem það hefur gert. Um þriðjungur viðurkennir að hafa ekið utan vegar. Mun algengara er að karlmenn aki utan vegar
Um 87% þátttakenda í könnuninni töldu að fræðslu um akstur utan vega væri ábótavant og að ein af algengari ástæðunum fyrir honum væri að fólk áttaði sig ekki á skaðanum sem hann ylli. Því væri ekkert tiltökumál að aka utan vega.