Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með hversu lítið stjórnvöld hafa tekið á aukinni svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki.
Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á trúnaðarmannaráðstefna RSÍ, sem var haldin á Selfossi dagana 25. og 26. október.
„Í Stöðugleikasáttmálanum voru ákvæði um að verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og stjórnvöld myndu sameinast um að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir þennan vanda, þar sem þeir sem standa að slíkri starfsemi verði dregnir til ábyrgðar og beittir þungum viðurlögum. Á þessum vanda hafa stjórnvöld ekki tekið með sama hætti og gert hefur verið í nágrannalöndum okkar. Þar vilja trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna benda sérstaklega á hvernig Norðmenn hafa tekið á þessum mikla vanda,“ segir í ályktunni.
Fleiri ályktanir voru samþykktar á ráðstefnunni, m.a. ályktun um kjaramál, efnahags- og húsnæðismál og um Evrópumál. Hvað varðar Evrópumálin, þá hvetur RSÍ stjórnvöld til að að ljúka aðildarviðræðum við ESB með það að markmiði að ná fram sem hagstæðustum samningi fyrir íslenska þjóð. „Vissulega eru aðstæður innan ESB erfiðar um þessar mundir en það á að vera í höndum þjóðarinnar að meta hvort sá samningur sem viðræðurnar skila á endanum sé ásættanlegur eður ei. Það verður eingöngu gert í þjóðaratkvæðagreiðslu að viðræðum loknum,“ segir í ályktuninni.
Nánar um ráðstefnuna og samþykktar ályktanir á heimasíðu RSÍ.