„Viljum benda á það sem betur má fara“

Til stendur að færa Álftanesveg út í hraunið.
Til stendur að færa Álftanesveg út í hraunið. mbl.is

Félagsskapurinn Hraunavinir mun hittast á morgun kl. 14 og fara í göngutúr um vegstæði fyrirhugaðs Álftanesvegar. Jónatan Garðarsson er félagsmaður í Hraunavinum og leiðsögumaður í göngunni. Hann segir tilgang göngunnar að vekja athygli á fyrirhuguðum framkvæmdum á svæðinu en til stendur að færa Álftanesveg út í hraunið.

„Við viljum frekar að vegurinn verði byggður upp þar sem hann er nú. Fyrir þremur árum lögðum við fram tillögur fyrir bæjarstjórn og Vegagerðina um hvernig hægt væri að gera veginn öruggari miðað við núverandi legu hans,“ segir Jónatan.

Hann segir að vel hafi verið tekið í hugmyndir hópsins í fyrstu en síðan hafi því verið slegið fram að tillögurnar væru of dýrar. „Það eru engir útreikningar sem liggja fyrir sem sýna það,“ segir Jónatan.

Hann segir tilgang göngunnar að minnast þeirra menningarlegu verðmæta sem voru á þessum slóðum og skoða það landslag sem mun afmyndast með komu nýs vegar.

„Þarna við vegstæðið eru klettar sem Kjarval málaði á 60-80 myndum. Samkvæmt gamla aðalskipulaginu á að koma önnur tenging frá Sjálandshverfi yfir í Garðaholt sem myndi fara þvert á þetta vegstæði. Þá færi það yfir aðra kletta sem Kjarval málaði. Því er um að ræða bæði náttúrusjónarmið og myndlistarsögusjónarmið af okkar hálfu. Við teljum að skynsamlegt sé að breyta út af þessum áætlunum,“ segir Jónatan.

Hann segir að hópurinn hafi ekkert á móti því að vegurinn sé lagður en kallar eftir annarri legu sem sé í meiri sátt við náttúruna.

Rúmlega eitt hundrað manns eru skráðir sem félagsmenn í Hraunavinum. Hópurinn hefur meðal annars farið í hreinsunarferðir um hraunið og tók þátt í að útbúa gönguleiðaskilti á svæðinu í góðri sátt við umhverfisnefnd Garðabæjar.

Jafnframt hafa nokkur þúsund manns skráð sig á mótmælaskrá inni á vefsvæðinu álftanesvegur.is. „Okkar hugmynd er ekki að vera á móti öllu, heldur viljum benda á það sem betur má fara,“ segir Jónatan.

Jónatan Garðarsson.
Jónatan Garðarsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert