Icelandair hefur tilkynnt að flug félagsins á morgun verði fellt niður vegna fellibylsins Sandy. Flugfélög um allan heim hafa verið að aflýsa flugferðum til New York. Búið er að aflýsa um 5.000 flugferðum til og frá New York vegna veðurs.
Þær flugferðir sem Icelandair felldi niður eru eftirfarandi:
FI 615 frá Keflavík til New York
FI 617 frá Keflavík til New York
FI 614 frá New York til Keflavíkur
FI 616 frá New York til Keflavíkur
Farþegum er bent á nánari upplýsingar á vef félagsins icelandair.is.
Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting valdi röskun á öðru flugi Icelandair.
Farið er að hvessa í New York, en reiknað er með að fellibylurinn komi upp að ströndinni í fyrramálið.
Óveðrið hefur þegar haft mikil áhrif á athafnalíf í borginni. Vörur hafa verið hamstraðar í búðum og er sumstaðar farið að bera á vöruskorti. Lestir munu hætta að ganga í kvöld og skert starfsemi verður í kauphöllinni í New York á morgun.