Enn er talsverð skjálftavirkni á Norðausturlandi. Flestir skjálftarnir í dag hafa verið á bilinu 0,7 - 1,7, en í morgun varð skjálfti sem mældist 3,4 stig.
Þá hafa tíu skjálftar af stærðinni 2 og yfir mælst í dag, samkvæmt óyfirförnum niðurstöðum á vefsíðu Veðurstofu Íslands.
Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi í síðustu viku og er það enn í gildi. Óvissustig á við þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Sýslumaðurinn á Húsavík, almannavarnanefnd Þingeyinga, Viðlagatrygging Íslands, Veðurstofa Íslands og almannavarnadeild ríkislögreglustjórans hafa boðað til íbúafunda vegna skjálftavirkni á Norðurlandi á morgun, þriðjudaginn 30. október.
Á Húsavík verður fundurinn kl 17:30 á Fosshóteli, Ketilsbraut 22 og á Kópaskeri verður fundur kl 21:00 á Skjálftasetrinu Akurgerði 6.