„Ertu að sjá hvað er í glasinu?“

Thelma hvetur almenning til að horfast í augu við vandann …
Thelma hvetur almenning til að horfast í augu við vandann og vinna sameiginlega að því að uppræta hann. AFP

Ung kona vill vekja almenning til umhugsunar um nauðgunarlyf sem eru í umferð á skemmtistöðum Reykjavíkur en hún segir algengt að reynt sé að byrla stúlkum ólyfjan. Um helgina fann hún pillu í tómu glasi sem hún hafði sótt sér á skemmtistað í miðborginni. Hún undrast viðbrögð dyravarða og eigenda.

Thelma Dögg Guðmundsdóttir segir í samtali við mbl.is að hún hafi ásamt vinkonu sinni og kunningjum verið stödd í einkaherbergi á ónefndum skemmtistað sl. laugardagskvöld. Þar hafi þau setið við svokallað „flöskuborð“. Búið var að stafla glösum á borðið og segist Thelma hafa teygt sig í eitt þeirra. Fyrir hreina tilviljun varð henni litið ofan í glasið og þar sá hún pillu.

Aðspurð segist hún hafa m.a. rætt við yfirdyravörð staðarins og sýnt honum glasið. „Ég segi við hann: „Ertu að sjá hvað er ofan í glasinu hjá mér? Það sem hann segir er: „Þú veist að þú ert inni í VIP-herbergi; svona gerist bara hérna. Þú verður að passa glasið þitt betur.““ Thelma furðar sig á viðbrögðunum og því að menn skuli ekkert kippa sér upp við þetta.

„Sjálf lenti ég í því fyrir áramót, á þessum sama stað, að þá var lyf sett í glasið hjá mér. Ég drakk það og afleiðingarnar af því voru ekki góðar,“ segir Thelma.

Umfjöllun á Facebook

Thelma fjallaði fyrst um málið á Facebook-síðu sinni. Hún segir að viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa en fjölmargir hafa sent henni tölvupóst og að hennar sögn hafa flestir þeirra sagt að þeir viti um þrjú til fjögur svipuð tilfelli.

Thelma segir nauðsynlegt að umræða fari fram um málið. „Á bara að leyfa þessu að halda áfram að gerast,“ spyr hún. Þetta sé vandamál víða og menn líti nánast á þetta sem  sjálfsagðan hluta skemmtanalífsins í miðborginni.

Að mati Thelmu er lítið sem ekkert gert til að sporna við þessum vanda. „Það sem ég er að gera er að benda á þetta er að gerast allsstaðar.“

Thelma segir ennfremur, að eigandi umrædds skemmtistaðar hafi haft samband við sig eftir að hún fjallaði um málið á Facebook. „Þegar hann er búinn að tala við mig segir hann: „Já, þá er þessu máli lokið.“ Mér fannst mjög skrítið að hann skyldi segja það,“ segir Thelma og heldur áfram: „Hann talaði eins og þetta væri ekkert mál.“

Thelma er honum algjörlega ósammála og tekur fram að enginn hefði haft samband við sig ef hún hefði ekki fjallað um málið á Facebook.

Hún tekur hins vegar fram, að meginmarkmiðið með umfjöllunin sé ekki að benda á einstaka skemmtistaði eða dyraverði, heldur að hvetja fólk til að taka sameiginlega á þessum vanda. Þetta sé nokkuð sem hún geti hvorki né vilji sætta sig við.

Thelma hefur stofnað síðu á Facebook sem heitir „Höfum augun opin“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert