Hugtakið flugfélag er ekki skilgreint í lögum um loftferðir né kemur það fyrir í reglugerðum byggðum á þeim lögum. Hvaða aðili sem er getur því í raun nefnt starfsemi sína flugfélag. Þetta kemur fram á vefsvæði Flugmálastjórnar og á það bent að hvorki Iceland Express né WOW air geti hins vegar sagt sig annast flugrekstur eða sagt vera með flugvélar í rekstri.
Þar segir að WOW ferðir hafi ferðaskrifstofuleyfi frá Ferðamálastofu og bæði Iceland Express og WOW air hafi ferðaskipuleggjendaleyfi frá Ferðamálastofu. Þau hafi hins vegar ekki flugrekendaskírteini eða flugrekstrarleyfi.
„Venjan hefur verið sú að hugtakið flugfélag er notað um þann sem hefur flugrekstrarleyfi og er þar af leiðandi flugrekandi. Flugrekandi getur selt farmiða og skipulagt flug án þess að hafa sérstaka heimild ferðaskipuleggjanda frá Ferðamálastofu. [...] Hins vegar er hugtakið flugfélag ekki skilgreint í lögum um loftferðir né kemur fyrir í reglugerðum byggðum á þeim lögum. Hvaða aðili sem er getur því í raun nefnt starfsemi sína flugfélag og ferðaskipuleggjendurnir Iceland Express og WOW air hafa gert það,“ segir á vefsvæði Flugmálastjórnar.
Þá segir, að það sé mjög villandi tungutak þegar ferðaskipuleggjandi gefi í skyn að hann ráði yfir loftfari, annist flugrekstur og ráði flugáhafnir til starfa, þegar hann hafi í raun gert þjónustusamning við flugrekanda sem ber einn ábyrgð á lofthæfi flugvélanna og starfrækslu þeirra. „Áhafnirnar eru á ábyrgð flugrekandans og starfa undir hans stjórn en ekki ferðaskipuleggjandans.“