Karl á fimmtugsaldri lést á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík um miðnætti í gærkvöld, en maðurinn fékk skyndilega hjartastopp og báru lífgunartilraunir ekki árangur. Maðurinn, sem var í haldi lögreglu þegar þetta gerðist, hafði verið handtekinn skömmu áður eftir að tilkynnt var um mann í miðborginni og hann sagður láta ófriðlega.
Lögreglan fór á vettvang og handtók manninn, sem veitti nokkra mótspyrnu. Í framhaldinu var hann fluttur á lögreglustöðina, en lést þar eins og áður sagði. Ríkissaksóknara var þegar gerð grein fyrir málinu og tók embætti hans yfir rannsókn þess lögum samkvæmt, segir í tilkynningu.