Misskilningur um Icesave-vexti

„Þetta er einhver misskilningur hjá þeim,“ segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbanka Íslands, í samtali við mbl.is, spurður út í fréttir hollenskra fjölmiðla fyrir helgi þess efnis að hollenskar Icesave-innistæður verði ekki aðeins að fullu endurgreiddar heldur með vöxtum og það haft eftir ónafngreindum fulltrúa slitastjórnarinnar.

Þannig segir til að mynda á fréttavef útvarpsstöðvarinnar RTL Nieuws: „Góðar fréttir fyrir hollenska sparifjáreigendur, sveitarfélög og héruð sem enn eiga inni fé hjá Íslandi. Þeir fá allt til baka með vöxtum.“

Páll segir að einu vextirnir sem slitastjórn Landsbanka Íslands greiði séu vextir fram að því að körfulýsingafrestur í búið rann út á fyrrihluta árs 2009. Viðræður um hugsanlega vexti umfram það séu ekki á borði slitastjórnarinnar heldur hluti af Icesave-málinu svonefndu á milli íslenskra og hollenskra stjórnvalda.

Hins vegar bendir hann á að vitanlega séu það ekki nýjar fréttir að gert sé ráð fyrir því að eignir Landsbanka Íslands dugi fyrir öllum forgangskröfum í bú bankans og þar með talið alla Icesave-kröfuna. Hins vegar hafi hollensku miðlarnir hugsanlega kveikt á málinu í kjölfar frétta nýverið um að búið væri að greiða út helminginn af forgangskröfunum.

Spurður um framhaldið hjá slitastjórninni segir Páll að hún haldi bara sinni vinnu áfram við að hámarka virði eigna Landsbanka Íslands og gera upp kröfur í bú hans. Næsti kröfuhafafundur verði 28. nóvember næstkomandi þar sem upplýst verði um stöðuna eins og hún verður þá.

Frétt RTL Nieuws

mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert