Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt rétt 58 ára konu til greiðslu bóta úr hendi Varðar trygginga vegna tjóns af völdum slyss sem hún varð fyrir þegar hún féll fram fyrir sig, á heimili sínu í nóvember 2009.
Í tilkynningu til tryggingafélagsins sagðist konan hafa verið á leið að svalahurð, hún hefði dottið fram fyrir sig, rotast og slasast á vinstri öxl og augnabrún. Tryggingafélagið féllst ekki á kröfu konunnar og taldi ekki að um væri að ræða slys eins og það er skilgreint í skilmálum.
Konan gaf skýrslu fyrir dómi þar sem hún sagðist hafa komið úr heim úr kvöldverðarboði. Eiginmaður hennar hefði verið genginn til hvílu, en hún ákveðið að fá sér einn „smók“ fyrir svefninn. Hefði hún gengið inn í stofu og í átt að svalahurðinni en þá skyndilega dottið. Hún hefði næst munað eftir sér, þegar hún hefði verið að ranka við sér og kallað á eiginmann sinn, sem hefði komið og í framhaldinu hringt á sjúkrabíl.
Að öðru leyti mundi konan lítið eftir atvikum, og kvaðst ekki vita hvað valdið hefði því að hún hefði dottið. Motta hefði verið a gólfinu og hún hefði verið í síðu pilsi og eins hefði leikfang eftir barnabörnin getað legið á gólfinu.
Hugtakið slys er skilgreint í tryggingaskilmálum stefnda sem skyndilegur utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er, og gerist án vilja hans. Er skilgreiningin í samræmi við hugtakið slys í vátryggingarétti og á fleiri réttarsviðum.
Dómurinn taldi ekkert hafa komið fram í málinu sem benti til þess að orsakir þess að konan féll í umrætt sinn væri að rekja til annars en skyndilegs utanaðkomandi atburðar. Því hefði verið um slys að ræða.
Tryggingafélagið hélt því þá fram að jafnvel þótt meiðsli konunnar væri að rekja til slyss hefði réttur til tryggingarinnar fallið niður þar sem konan hefði verið drukkin þegar umrætt slys hefði átt sér stað. Vísaði félagið bæði í vætti heilbrigðisstarfsmanna og eigin frásögn konunnar.
Í þessu sambandi vakti tryggingafélagið athygli á því að af áverkum konunnar mætti ráða að hún hefði fallið fram fyrir sig og skollið þannig í gólfið að öxl og höfuð hefði lent harkalega á gólfinu. Af því var dregin sú ályktun að hún hefði fallið kylliflöt og endilöng, án þess að bera hendur fyrir sig. Af hálfu félagsins var fullyrt að einstaklingur, sem væri með fullnægjandi meðvitund, bæri að öllu jöfnu hendur fyrir sig, þegar honum yrði fótaskortur.
Konan hafnaði því alfarið að hún hefði verið drukkin þegar slysið varð eða slysið mætti rekja til áfengisneyslu hennar fyrr um kvöldið. Hún hefði neytt borðvíns með mat í matarboðinu og mögulega líkjörs. Hún hefði verið undir áhrifum áfengis en ekki drukkin.
Dómurinn taldi enga vissu um ölvunarástand konunnar þegar hún varð fyrir meiðslum. Að mati læknis á slysdeild- og bráðadeild var konan „örlítið ölvuð“ við komuna þangað, en einnig væri í skilmálum Varðar áskilnaður um orsakasamband milli tjóns og ölvunar vátryggingartaka. Ekki þótti tryggingafélagið hafi sýnt fram á það orsakasamhengið.
Það var því niðurstaða dómsins að taka bæri viðurkenningakröfu konunnar til greina.