Bændur búnir undir óveður

Grímur Vilhjálmsson, bóndi á Rauðá, segir að bændur séu flestir …
Grímur Vilhjálmsson, bóndi á Rauðá, segir að bændur séu flestir búnir undir óveður í lok október. Staðan sé því önnur en hafi verið í september þegar tíðin var óvenjulega slæm og kom þar af leiðandi mörgum í opna skjöldu. mbl.is/RAX

„Ég rak allt mitt fé inn í gærkvöldi og það er inni,“ segir Grímur Vilhjálmsson, bóndi á Rauðá í Suður-Þingeyjasýslu, í samtali við mbl.is, spurður um ráðstafanir bænda vegna slæmrar veðurspár, einkum fyrir Norðurland, næstu daga. Hann vonast til að óveðrið nú verði ekki eins slæmt og það var í september.

„Það er að versna hérna veðrið. Það er hægviðri ennþá; éljagangur að norðaustan. En skyggni eins og er er svona fimm kílómetrar, á milli élja,“ segir Grímur.

Gæta mjög vel að bústofninum

„Ég er klár á því að margir bændur eru núna að huga að fé sínu og reyna að hýsa það ef þeir geta, að minnsta kosti hafa það heima við hús,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við mbl.is.

Sigurður bendir á að áhlaupið í september sé mönnum enn í fersku minni. „Því er alveg öruggt að menn munu reyna að gæta mjög vel að bústofninum núna á næstu dögum,“ segir Sigurður.

Menn hlusta á veðurspána

Grímur bendir á að óveðrið sem gekk yfir landið norðanvert í september hafi verið óvenjulegt miðað við árstíma. „Þetta var sérstakt fyrir það að þetta var svo mikið fannfergi á köflum og veður. Byrjaði með krapi; þetta var svo blautt,“ segir Grímur.

Þá tekur hann fram að lítið sem ekkert hafi snjóað hjá sér þegar mesta óveðrið gekk yfir í síðasta mánuði. „Það snjóaði aldrei neitt hérna, það var bara grá jörð. Um 30 kílómetrum sunnan við okkur, suður í Bárðardalnum, þar var allt á kafi og eins í Mývatnssveit.“

Spurður út í undirbúning bænda á svæðinu vegna óveðursins sem búið er að spá nú segir Grímur: „Ég hef ekki nokkra trú því að menn hafi undirbúið sig nokkuð öðruvísi en venjulega, því við erum svo vanir þessu hér. Það fólk sem ég þekki hér það hlustar á veðurspána og hagar sér bara eftir henni,“ segir Grímur.

„Þetta kemur manni ekkert á óvart þegar þessi árstími er kominn,“ segir hann að lokum.

Hvekktir eftir áhlaupið í haust

„Miðað við það sem á undan er gengið er reynsla okkar sú, að menn eru veðurhræddir í tíu til tólf ár á eftir. Fólk er hvekkt eftir áhlaupið sem var í haust. Ef það eru minnstu líkur á vondu veðri eru menn stokknir til að koma búfénaði í skjól. Veðurspáin er tekin alvarlega,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, formaður sauðfjárbænda og bóndi á Grýtubakka, í Morgunblaðinu í dag.

Hann sagðist vera búinn að ná flestu fé heim að bæ og sagði það eiga einnig við um bændur í kring.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert