„Ég var bjargarlaus“

Ung kona vill meiri umræðu um nauðgunarlyf sem eru í …
Ung kona vill meiri umræðu um nauðgunarlyf sem eru í umferð á skemmtistöðum. Sjálfri hefur henni tvisvar sinnum verið byrluð slík ólyfjan. Kristinn Ingvarsson

„Þetta gerðist allt svo hratt. Ég man voðalega lítið, en allt í einu missti ég jafnvægið í fótum og höndum. Ég ældi og ældi en það lagaðist lítið. Ég náði einhvern veginn að skríða upp tröppurnar á skemmtistaðnum. Fólk horfði á mig og hló að mér og sagði: „Sjáið hvað þessi stelpa er rosalega vel í glasi.“ Svona lýsir Sólveig Gylfadóttir, 21 árs fyrirsæta og nemi, reynslu sinni af því að hafa verið byrlað nauðgunarlyf á skemmtistað í Reykjavík.

„Kunningjar mínir hlógu að mér og sögðu að ég þyrfti að koma mér heim því ég væri orðin allt of full. En það var ég ekki. Þetta skall bara allt í einu á mér. Ég hafði enga stjórn á útlimum mínum, ég var alveg bjargarlaus. Ég náði einhvern veginn að skríða út af skemmtistaðnum. Þar hitti ég kunningja minn sem spurði hvað hefði eiginlega verið sett í drykkinn minn og hann hélt á mér þar til ég var sótt. Það er ótrúlegt að enginn skuli hafa tekið eftir því sem var í gangi nema hann. Ég er svo þakklát í hans garð og veit ekki hvað hefði orðið um mig ef hann hefði ekki hjálpað mér.“

Hún segir viðtal mbl.is í gær við unga konu sem lenti í því sama hafa fengið sig til að stíga fram og segja sögu sína. Allt of lítil umræða sé um nauðgunarlyf sem séu í umferð á skemmtistöðum og hún segist þekkja nokkrar konur sem hafi verið byrlað slík lyf. Sólveig segir atvikið hafa gerst á sama stað og það sem greint var frá í viðtalinu í gær.

Skammaðist sín fyrir að hafa lent í þessu

Sólveig segist hafa skammast sín fyrir að hafa lent í þessu, þrátt fyrir að hún viti að hún eigi enga sök á því hvað gerðist. Hún segist hafa fundið fyrir mikilli vanlíðan daginn eftir eins og hún væri með mikla timburmenn, en fór ekki til læknis. „Auðvitað hefði ég átt að gera það og ég hefði líka átt að tala við eiganda skemmtistaðarins. En ég gerði það ekki, mér leið svo illa og skammaðist mín. Þetta var ótrúlega óhugnanleg upplifun og eftir þetta atvik fylgist ég alltaf með drykknum mínum og legg til að allar stelpur geri það.“

Er ekki farið að sjást á henni?

En þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Sólveigu var byrlað lyf af þessu tagi. Þetta hefur gerst einu sinni áður og þá var hún unglingur og fékk að fara með vinkonum sínum á tónleika í Laugardalshöllinni. 

„Þar voru strákar fyrir framan okkur sem spurðu hvort við vildum ekki fá bjór. Við vorum ungar og vitlausar og þáðum það. Eftir rúman hálftíma komu þeir aftur með bjórdósir. Ég fékk efstu dósina, sem var opin, en ég var ekkert að pæla í því. Eftir smástund fór ég að missa jafnvægi í fótunum og ég heyrði strákana hvíslast á: „Er ekki farið að sjást á henni, eigum við að tala við hana núna?“ Vinur minn kom, sá hvað var í gangi og passaði upp á mig það sem eftir var af tónleikunum.

Ég hef verið heppnari en margar aðrar, því að vinir mínir pössuðu upp á mig. Ég hef heyrt ljótar sögur af stelpum sem hafa ekki verið jafnheppnar,“ segir Sólveig. „Það vantar meiri umræðu, alveg klárlega.“

Sólveig Gylfadóttir sagði mbl.is sögu sína af því að hafa …
Sólveig Gylfadóttir sagði mbl.is sögu sína af því að hafa verið byrluð nauðgunarlyf tvisvar sinnum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert