Gert ráð fyrir 7,6 milljarða afgangi

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar kynntu fjárlögin í Ráðhúsi Reykjavíkur …
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar kynntu fjárlögin í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Jón Gnarr borgarstjóri er fyrir miðri mynd. mbl.is/Golli

Gert er ráð fyrir 7,6 milljarða afgangi af samstæðureikningi Reykjavíkurborgar á árinu 2013 samkvæmt fjárhagsáætlun sem kynnt var á blaðamannafundi í dag. Þar af er gert ráð fyrir að A-hluti reksturs borgarinnar skili 329 milljón króna afgangi á næsta ári.

Reykjavíkurborg hyggst verja tæpum sjö milljörðum til fjárfestinga á árinu en meðal stórra verkefna sem fyrirhugað er að fara í á árinu 2013 eru til að mynda gagngerar endubætur á Hverfisgötu sem hefjast á því ári.

Ennfremur er gert ráð fyrir að miðað við óbreytt ástand muni fjárframlög til fjárhagsaðstoðar í Reykjavík hækka um rúman milljarð króna. Rúmur helmingur útgjalda aðalsjóðs borgarinnar fer til skóla- og frístundamála.

Samkvæmt fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir mikilli niðurgreiðslu skulda og skiptir þar miklu máli að aðgerðaáætlun fyrir Orkuveitu Reykjavíkur hafi gengið eftir. Gert er ráð fyrir að afkoma samstæðunnar batni um 5,6 milljarða króna fram til 2017 og jákvæð afkoma verði allt tímabilið.

Þá er stefnt að því að skuldir og skuldbindingar dragist saman um 51,4 milljarða króna og nema 249 milljörðum við lok tímabilsins. Samhliða því er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall samstæðunnar batni verulega og verði rúmlega 194 milljarðar 2017.

Jón Gnarr borgarstjóri sagðist á fundinum mjög ánægður með fjárhagsáætlunina og hvernig til hefði tekist í fjármálum borgarinnar á kjörtímabilinu. Unnið hefði verið að því að koma á stöðugleika í rekstri hennar og greiða niður skuldir og það hefði tekist. „Mér finnst þetta mikil gleðistund, það er bjart framundan í Reykjavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert