Reykjavíkurborg fær 32% meira í skatt frá íbúum 2013 en árið 2010. Skatttekjur voru 50 milljarðar 2010 en eru áætlaðar 66,2 milljarðar 2013. Þetta segir í yfirlýsingu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem gagnrýnir nýja fjárhagsáætlun borgarinnar sem kynnt var í dag.
Sjálfstæðismenn segja að kerfið hafi þanist út um 30% á kostnað borgarbúa í meirihlutatíð Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Lítið sem ekkert hafi verið hagrætt í kerfinu en kostnaður þvert á móti aukinn. Ekkert bóli á því átaki í hagræðingu sem meirihlutinn ætlaði í við upphafi kjörtímabilsins. „Hinsvegar hefur meirihlutinn fundið ný verkefni og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex frá ári til árs og kostnaður eykst,“ segir í yfirlýsingu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.
Að mati sjálfstæðismanna væri það skynsamlegra, sanngjarnara og farsælla að nýta það svigrúm sem til staðar er til að hagræða í kerfinu. „Þannig á borgarstjórn Reykjavíkur ekki að nýta auknar skatttekjur til að þenja út eigið kerfi heldur til að lækka álögur á heimilin í borginni,“ segir í yfirlýsingunni.