Málflutningur Jóhönnu ekki breyst í áratug

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax

Málflutningur Jóhönnu nú minnir á kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir tæpum tíu árum. Eftir áratug er það enn helsta stefnumálið að sjá til þess að Sjálfstæðisflokkurinn komi ekki að stjórn landsins. Þar á eftir kemur að ganga í ESB og kollvarpa fiskveiðistjórnunarkerfinu.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars í bréfi til sjálfstæðismanna í dag og vísar þar til ummæla Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina þar sem hún lagði áherslu á að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.

„Það er furðulegt að gera þessu umræðuefni jafn hátt undir höfði og Jóhanna hefur gert, ekki síst í ljósi þess að þar með vekur hún æ ofan í æ athygli á því að ríkisstjórn VG og Samfylkingar er í raun fallin. Þau sjá ekki fram á að geta haldið áfram óbreyttu samstarfi,“ segir Bjarni.

Hann furðar sig ennfremur á því að leiðtogar vinstrimanna og fylgitungl þeirra skuli telja að hunsa beri meðlimi Sjálfstæðisflokksins og þá ekki síst í ljósi þess að þeir séu um 50 þúsund talsins og skoðanakannanir sýni að enn fleiri styðji Sjálfstæðisflokkinn.

„Sá sem er forsætisráðherra hverju sinni verður að geta verið ráðherra allra landsmanna, ekki einungis sinna flokksmanna. Ég vona að við getum sameinast um raunsæi, skynsemi og rétta forgangsröðun og þannig lokið þessu kjörtímabili - og hafið nýtt - með meiri reisn á vettvangi stjórnmálanna,“ segir Bjarni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka