Stjórnvöld tryggi réttan útreikning

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Hjörtur

Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til að tryggja að endurútreikningur gengistryggðra lána Arion banka verði í samræmi við ákvörðun Neytendastofu sem komst að þeirri niðurstöðu að Arion banki hefði brotið lög um neytendalán með því að upplýsa lántakendur ekki um breytilegt álag sem lagt var ofan á Liborvexti.

Neytendastofa og síðar áfrýjunarnefnd neytendamála komust að fyrrnefndri niðurstöðu og á Arion banki því að reikna lánin miðað við þau vaxtakjör sem lántaki samþykkti. 

Á vefsvæði Neytendasamtakanna segir að í kjölfar dóms Hæstaréttar 600/2011 hafi verið ljóst að endurreikna þyrfti gengistryggð lán sem áður höfðu verið dæmd ólögleg. „Neytendasamtökin sendu í kjölfarið erindi á efnahags- og viðskiptaráðuneytið í mars 2012 og minntu á að skilmálar Arion banka á gengistryggðum neytendalánum hefðu verið úrskurðaðir ólöglegir og taka þyrfti tillit til þess við endurútreikning lána.

Ráðuneytið kallaði eftir viðbrögðum frá bankanum sem svaraði með bréfi dagsettu 29. maí 2012.  Ekki er annað að skilja af svarinu en Arion banki misskilji ákvörðun Neytendastofu og því ítrekuðu Neytendasamtökin kröfu sína í erindi til ráðuneytisins 10. júlí 2012. Síðan þá hefur ekkert frést af málinu.“ 

Sökum þessa hvetja Neytendasamtökin stjórnvöld til að tryggja að endurútreikningur gengistryggðra lána Arion banka verði í samræmi við ákvörðun Neytendastofu.

Sjá ákvörðun Neytendastofu og úrskurð áfrýjunarnefndar neytendamála. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert