Síminn hefur gert nýjan samning við Farice um fjarskiptasamband við útlönd, en í sumar sagði Farice upp samingi við bæði Símann og Vodafone frá og með 31. október, á morgun. Vodafone á aftur á móti eftir að gera nýjan samning, en það mun ekki hafa nein áhrif á þjónustu fyrirtækisins.
„Farice tilkynnti í gær að við hefðum gert nýjan samning við þá,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Spurð hvers vegna samningnum hafi verið sagt upp í sumar segir hún það hafa verið vegna vilja hjá Farice til að hækka verð. „En það er trúnaðarmál hversu miklar þær voru,“ segir Gunnhildur Arna.
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir fyrirtækið ekki hafa gert nyjan samning, en samningaviðræður við Farice séu í gangi og búist sé við að þeim ljúki á næstu dögum. „Þar sem samningaviðræður eru í gangi þarf enginn að hafa áhyggjur af því að þjónustan skerðist. Það eru nokkur mál sem standa út af borðinu, en allir málsaðilar eru sammála um að Farice muni veita okkur sömu þjónustu áfram.“
Þannig að það verður engin röskun á gagnaflutningum viðskiptavina Vodafone þó að samningurinn renni út? „Nei, alls ekki.“
Af hverju eruð þið ekki búin að semja? „Okkur þóttu þeirra hugmyndir um hækkun ekki alveg í takt við okkar hugmyndir, þannig að við erum að ræða verð og fleira.“