Samtals munu í það minnsta tíu sitjandi þingmenn hverfa af Alþingi eftir þingkosningarnar sem fyrirhugaðar eru í apríl á næsta ári. Eins og staðan er í dag er ljóst að þrír þingmenn munu allavega hætta á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tveir fyrir hvern af hinum þremur stóru flokkunum auk eins óháðs þingmanns. Þar af eru sex konur og fjórir karlar. Að minnsta kosti 48 sitjandi þingmenn hafa á hinn bóginn hug á áframhaldandi þingsetu eftir næstu kosningar.
Eins og kunnugt er ætlar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, formaður Samfylkingarinnar og þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, ekki að gefa áfram kost á sér til þingsetu eftir kosningarnar á næsta ári. Ennfremur mun Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og forseti Alþingis, ekki taka þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík.
Tveir varaformenn hætta á þingi
Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu standa upp úr þingsætum sínum, þau Ólöf Nordal, varaformaður flokksins og þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Suðvesturkjördæmis, og Ásbjörn Óttarsson, oddviti sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.
Tveir þingmenn munu einnig segja skilið við Alþingi úr röðum framsóknarmanna, þau Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, og Siv Friðleifsdóttir, þingmaður og oddviti framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi.
Þá liggur fyrir að tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs munu hætta á þingi eftir kosningarnar en það eru þau Þuríður Backman, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, og Þráinn Bertelsson, þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Þá hættir Atli Gíslason sem situr sem óháður þingmaður fyrir Suðurkjördæmi en var áður fulltrúi VG.
Ekki liggur fyrir með fimm þingmenn
Fimm þingmenn hafa ekki gefið upp hvort þeir hafi í hyggju að bjóða áfram fram krafta sína á Alþingi en það eru tveir þingmenn VG, tveir þingmenn Hreyfingarinnar og Lilja Mósesdóttir, þingmaður Samstöðu og fulltrúi Reykjavíkurkjördæmis suður.
Hinir fjórir þingmennirnir eru Björn Valur Gíslason, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður sama flokks í Suðvesturkjördæmi, Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi, og Þór Saari, þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi.
Ef horft er til kjördæma er ljóst samkvæmt þessu að tveir þingmenn Norðausturkjördæmis hætta, tveir þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður, tveir þingmenn Reykjavíkurkjördæmis suður, tveir þingmenn Suðvesturkjördæmis, einn í Norðvesturkjördæmi og einn að sama skapi í Suðurkjördæmi.