„Við fréttum af myndbandinu í gær, en fengum pata af því á mánudag. Eitt leiddi af öðru og eftir svolitla yfirlegu sáum við að þetta leit ekki vel út fyrir Guðmund eða félagið að tengjast þessu. Því tókum við þá ábyrgu afstöðu að slíta á milli,“ segir Hörður Már Harðarson, stjórnarformaður Landsbjargar.
Eins og fram kom á mbl.is í gærkvöldi óskaði framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Guðmundur Örn Jóhannsson, eftir leyfi frá störfum vegna blaðagreinar sem sem birtist í DV í dag. Þar er fjallað um myndband sem birt var á myndbandavefnum Youtube og er hann í því vændur um peningaþvætti og gjaldeyrisbrask. (Aths. ritsj. Guðmundur andmælir í bréfi til mbl.is efni myndbandsins og segir það tilbúning, til að skaða æru og trúverðugleika hans. Þá segir hann að það sem fram kemur í umræddu myndbandi sé slitið úr öllu samhengi og afbakað með öllu.)
Í myndbandinu eru meint brot Guðmundar tengd við störf hans hjá Landsbjörgu. Tölvubréf sem birt eru í myndbandinu bera það hins vegar með sér að vera skrifuð snemma árs 2011. Þá hefur Guðmundur sjálfur borið við að um sé að ræða viðskipti sem hann tók þátt í tveimur árum áður en hann hóf störf hjá Landsbjörgu, en hann var ráðinn framkvæmdastjóri fyrr á þessu ári.
Hörður segir að bókhald Landsbjargar sé fært eftir mjög stífum leikreglum. „Við erum með löggilta endurskoðendur og svo eru þessir reikningar lagðir fyrir félagið til samþykktar. Það er ekkert í þessu sem bendir til að það sé tenging á milli viðskipta Guðmundar og Landsbjargar.“
Spurður að því hvort það geti verið að Guðmundur hafi staðið í vafasömum viðskiptum á meðan hann var framkvæmdastjóri segir Hörður: „Við erum með ákveðnar siðareglur sem við förum eftir og þær eiga bæði við um sjálfboðaliða og starfsfólk. Það er ekkert sem stendur til þess að félagið tengist hans málum með nokkrum hætti.“
Tímasetningin telst sérlega slæm fyrir Landsbjörgu en á morgun hefst sala Neyðarkallsins. Hörður segir málið vissulega erfitt fyrir félagið en eitt skref verði tekið í einu. „Við erum með félag sem stofnað var 1928 og hafa þúsundir sjálfboðaliða lagt gríðarlega vinnu í það að rýna samfélag sitt og gera bætur, vera reiðubúin þegar óvæntir atburðir dynja yfir. Það er engin einstaklingur stærri en félagið.“
Hann segir að hingað til hafi þjóðin staðið með björgunarsveitunum og hann vonar að þetta mál hafi ekki áhrif á söluna. „Við gerum allar ráðstafanir sem við getum og segjum satt og rétt frá. Ef menn vilja skoða allt þá er það opið.“
Þegar mbl.is náði í Guðmund í morgun boðaði hann að yfirlýsing verði send út fyrir hádegið.