„Ég held að ég myndi alveg verða að gagni í svona fjögur ár í viðbót. Mér finnst þetta nefnilega alls ekki leiðinleg vinna þó hún sé dálítið ögrandi. En mér finnst þetta mjög gefandi og mikil forréttindi að fá að vera í umboði þjóðarinnar inni á Alþingi á svona tímum sem við erum á núna.“
Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, í samtali við mbl.is spurð að því hvort hún hafi hug á að starfa áfram á Alþingi eftir þingkosningarnar á næsta ári ef hún fær til þess stuðning. Birgitta hefur eins og kunnugt er unnið ásamt fleirum að stofnun nýs stjórnmálaafls, Píratapartísins, og sú vinna er í fullum gangi að hennar sögn.
„Það vantar kannski svolítið fleira fólk með hliðstæðan vinkil og ég er með,“ segir Birgitta ennfremur og segist ætla að sjá til hverjir verða í framboði. „Ef ég sé eitthvert fólk sem er á svona sömu bylgjulengd og ég þá er ágætt að það verði endurnýjun en það er auðvitað líka ágætt að nýta reynslu og miðla henni áfram.“