Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni krefst þess að sú skerðing á kjörum eldri borgara, sem tók gildi 1. júlí 2009, verði afturkölluð þegar í stað.
Kjaraskerðing þessi var framkvæmd vegna bankahrunsins og var tímabundin. Í greinargerð með frumvarpinu um ráðstafanirnar sagði svo: „Lögð er áhersla á að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða, sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu“.
Þetta kemur fram í ályktun frá kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
„Því er eðlilegt að kjaraskerðingin sé nú afturkölluð þegar 4 ár eru liðin frá bankahruninu. Kjaraskerðing ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna hefur þegar verið afturkölluð. Ekki var spurt hvort fjármunir væru fyrir hendi til þess að standa undir afturköllun á kjaraskerðingu þessara launahæstu embættismanna landsins. Því síður þarf að spyrja hvort fjármunir séu fyrir hendi til þess að leiðrétta kjör aldraðra. Kjaranefndin krefst þess ennfremur að lífeyrir aldraðra verði strax hækkaður um 20% til þess að leiðrétta þá kjaraskerðingu og kjaragliðnun sem aldraðir urðu fyrir á krepputímanum.
Enn bólar ekkert á því að ríkisstjórnin sé að undirbúa framangreinda leiðréttingu á kjörum aldraðra. Einu svörin sem ríkisstjórnin gefur í þessu efni eru þau að unnið sé að endurskoðun almannatrygginga. Kjaranefndin ítrekar því enn einu sinni að tillögur starfshóps um endurskoðun ellilífeyris almannatrygginga leysa ekki kjaramál aldraðra í dag. Tillögurnar fela ekki í sér neinar beinar kjarabætur fyrir aldraðra og aðeins er um óverulegar óbeinar kjarabætur að ræða. Á næsta ári færa tillögurnar þeim ellilífeyrisþegum,sem njóta lífeyris frá lífeyrissjóðum, sáralítinn ávinning,“ segir ályktuninni.