Makríldeila hefur áhrif á norrænt samstarf

Makríll.
Makríll. Ljósmynd/ Albert Kemp

„Það er greinilegt að það er harður tónn á milli deiluaðila og makríldeilan er farin að hafa áhrif á andrúmsloftið í norrænu samstarfi,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður Vestnorræna ráðsins, sem nú situr fund þings Norðurlandaráðs í Helsinki í Finnlandi.

„Deilan kom ítrekað upp í umræðum hér í dag. Þetta er farið að hafa áhrif, að manni finnst, á andann í hinu norræna samstarfi. Þess vegna finnst okkur fulltrúum Vestnorræna ráðsins (í ráðinu eru fulltrúar Færeyja, Grænlands og Íslands) að það sé ástæða fyrir Norðurlandaráð að beita sér til góðs í þessari deilu. Það gæti meðal annars verið með því að styðja við kröfu Íslendinga og Færeyinga um auknar rannsóknir á makrílstofninum, þannig að það sé hægt að ræða þetta mál á forsendum raunverulegrar þekkingar um hvað sé að gerast með göngumynstur, hrygningarmynstur og ferðir makrílsins á milli fiskveiðilögsagna,“ segir Ólína.

Deilt um sannleiksgildi upplýsinga

Ólína segir að hörkuna í deilunni megi að hluta rekja til togstreitu um hvaða upplýsingar um makrílinn séu marktækar og hvort fyrir liggi nægileg þekking. Hún segir að fulltrúar Vestnorræna ráðsins styðji við þessa kröfu Íslendinga og Færeyinga um auknar rannsóknir. „Fulltrúar Vestnorræna ráðsins hafa allir tjáð sig í þá veru að Norðurlandaráð ætti að beita sér fyrir auknum rannsóknum og helst að eiga frumkvæðið að því að það verði farið í fjölþjóðlega rannsókn á makrílstofninum.“

Hefur Norðurlandaráð lýst yfir vilja til að beita sér á þennan hátt? „Nei, þetta var bara í umræðunni í dag. Það hafa ekki komið fram neinar formlegar tillögur eða ályktanir ennþá. En andinn í umræðunni talar sínu máli. “

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður Vestnorræna ráðsins.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður Vestnorræna ráðsins. Ólína Þorvarðardóttir
Makrílveiðar.
Makrílveiðar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka