Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segist hafa miklar áhyggjur af fjárveitingum til Ríkisendurskoðunar, en þær dragast saman um 34,5 milljónir að raungildi á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Sveinn segir að verði þetta niðurstaðan þurfi Ríkisendurskoðun að segja upp starfsfólki.
Ríkisendurskoðun hefur eins og fleiri stofnanir þurft að draga saman seglin eftir hrun. Stofnunin fékk 482,2 milljónir af fjárlögum árið 2008, en fær í ár 430,4 milljónir. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2013 fær stofnunin 410,1 milljón sem er samdráttur um 4,7%. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta sé samdráttur að raungildi um 34,5 milljónir.
Á sama tíma og Ríkisendurskoðun er gert að skera þetta mikið niður aukast útgjöld til aðalskrifstofu ráðuneytanna. Aukningin er að jafnaði um 4-5%, en mest er hún hjá forsætisráðuneytinu, 12,2%.
Ríkisendurskoðun hefur oftast nær ekki nýtt alla fjárveitingu til stofnunarinnar. Síðustu tvö ár hefur stofnunin hins vegar þurft að ganga á ónotaðar fjárheimildir og eru þær nú uppurnar. Þegar við bætist skerðing á fjárveitingu til stofnunarinnar á næsta ári stefnir í óefni varðandi rekstur stofnunarinnar. Sveinn sagði í samtali við mbl.is að verði ekki gerðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu, sem nú er til umfjöllunar í fjárlaganefnd, verði Ríkisendurskoðun að segja upp starfsfólki á næsta ári.
Starfsmenn Ríkisendurskoðunar eru nú 42, en þeir voru 50 fyrir hrun.
Ríkisendurskoðun fékk á þessu ári 20 milljón króna tímabundna hækkun á fjárveitingum á þessu ári. Þessi hækkun er felld út í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Jafnframt er 7 milljón króna fjárveiting vegna húsnæðiskostnaðar, sem kom inn árið 2004, felld út. Einnig er lögð til 7,5 milljón króna hagræðingarkrafa á Ríkisendurskoðun í samræmi við stefnu stjórnvalda um jöfnuð í ríkisfjármálum.
Sveinn segir augljóst að Ríkisendurskoðun verði, miðað við þessar fjárveitingar, að draga úr starfsemi. Hann segir að á síðustu árum hafi Alþingi verið að setja aukin verkefni á Ríkisendurskoðun. Eftirlit með fjármálum stjórnmálaflokka væri dæmi um ný verkefni. Einnig eftirlit með reiknivél gengistryggðra lána, sem ákveðið hefur verið að setja upp hjá Umboðsmanni skuldara. Sveinn sagði að það eftirlit með reiknivélinni þýddi að Ríkisendurskoðun þyrfti að kaupa sérfræðiþekkingu, því um flókið og viðamikið verkefni væri að ræða.