Seðlabankinn „braust inn í bókhald“ Samherja

Við húsleitina hjá Samherja í mars á þessu ári.
Við húsleitina hjá Samherja í mars á þessu ári. Skapti Hallgrímsson

Hæstiréttur hefur vísað frá dómi kröfu Samherja og tengdra félaga um að sú rannsóknaraðgerð Seðlabanka Íslands að „brjótast inn“ á lokuð svæði í tölvu sem afhent var í tengslum við haldlagningu gagna hjá tölvufyrirtæki verði dæmd ólögmæt. Þá var hafnað kröfu um að Seðlabankanum verði gert að loka fyrir aðganginn og eyða afritum af gögnum.

Seðlabankinn er með til rannsóknar ætluð brot Samherja og tengdra aðila á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim. Meðal annars var Seðlabankanum heimiluð húsleit og haldlagning gagna hjá tölvufyrirtæki sem hélt utan um bókhaldskerfi félagsins. Var fyrirtækið skyldað til að afhenda Seðlabankanum til haldlagningar og afhenda öll gögn af sameiginlegum svæðum þess og tilgreindra félaga, heimasvæðum, bókhaldskerfi og tölvupósti.

Kom í ljós að í bókhaldskerfi Samherja var fært bókhald fleiri lögaðila, meðal annars félaga sem eru til rannsóknar. Hins vegar hafi bókhaldi annarra félaga en Samherja verið læst og voru þau því ekki aðgengileg.

Lögmaður Samherja hafnaði þeirri umleitan Seðlabankans að afhent yrði lykilorð að læstu svæðunum. Síðar sendi starfsmaður Seðlabankans bréf til lögmanns Samherja og greindi frá því að ekki væri lengur þörf á lykilorðinu þar sem starfsmenn Seðlabankans virkjuðu svonefndan varaaðgang að bókhaldskerfinu og fengu þannig aðgang að hinum læstu skrám.

Samherji og hin félögin reistu kröfu sína á því að Seðlabankinn hafi ekki haft lagaheimild til að „brjóta sér leið“ inn í bókhaldskerfið og skoða gögn á læstum svæðum. Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur vísuðu þeirri kröfu hins vegar frá þar sem rannsóknarathöfnin var þegar yfirstaðin þegar hún var kærð.

Þá var kröfu félaganna um að Seðlabankanum verði gert að loka fyrir aðganginn og eyða afritum af gögnum hafnað þar sem heimild Seðlabankans til að skoða bókhaldsgrunninn var ekki bundin takmörkunum. Þá var jafnframt talið að Seðlabankinn ætti að fá nokkuð svigrúm til að meta hvort gögnin hefðu þýðingu fyrir rannsókn málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka