„Umrætt myndband er tilbúningur“

Guðmundur Örn Jóhannsson
Guðmundur Örn Jóhannsson Ómar Óskarsson

„Umrætt  myndband er tilbúningur einn af ónefndum aðila sem gert er í þeim tilgangi að skaða æru og trúverðugleika undirritaðs og eftir atvikum þeirra samtaka sem undirritaður hefur starfað hjá sem framkvæmdastjóri.“ Þetta segir Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, í bréfi til mbl.is.

Eins og greint hefur verið frá var birt myndband á Youtube þar sem Guðmundur Örn er  vændur um peningaþvætti og gjaldeyrisbrask. Hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri Landsbjargar í gærkvöldi vegna málsins.

Guðmundur segir að hin „meintu svik“ sem komi fram í myndbandinu séu, auk þess að skaða orðspor sitt, sett upp með þeim hætti að þau kunni að skaða orðspor Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. „Þá skal tekið fram að það sem fram kemur í umræddu myndbandi er slitið úr öllu samhengi og afbakað með öllu.“

Í samtali við mbl.is í morgun boðaði Guðmundur yfirlýsingu vegna málsins, en hún hefur ekki enn borist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert