Veður versnar á NA-landi

Ferðaveður og færð verður slæm á norðaustanverðu landinu í nótt …
Ferðaveður og færð verður slæm á norðaustanverðu landinu í nótt og á morgun. mbl.is/Ómar

Veður fer nú versnandi um landið norðaustanvert, og má þar gera ráð fyrir miklum vindi, 18-23 m/s og snjókomu og skafrenningi í alla nótt og á morgun. Ferðaveður og færð verður því ákaflega slæm. 

Um landið norðvestanvert verður vindur áfram mikill, en heldur dregur úr ofankomu í kvöld. Skyggni verður þó áfram slæmt og færð léleg vegna skafrennings og vinds, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.

Um landið sunnanvert hvessir einnig og má búast við NA 18-23 m/s.

Mjög snarpar vindviður verða við fjöll á Kjalarnesi, í Hamarsfirði og undir Eyjafjöllum og Vatnajökli má búast við meðalvindi jafnvel um 20-25 m/s og vindhviðum upp undir 40 m/s.

Hálkublettir og hálka víða um land

Hálkublettir eru á Hellisheiði og Mosfellsheiði og á Gjábakkavegi.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum leiðum.  Óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hálka eða hálkublettir og óveður er á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er víða orðið mjög hvasst. Snjóþekja og óveður er á Steingrímsfjarðarheiði og slæmt ferðaveður. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á flestum vegum.  Ófært er á Hrafnseyrarheiði og eins á Veiðileysuhálsi. Hálkublettir og óveður er á Hjallahálsi og þæfingsfærð og óveður á Klettshálsi og búist er við að hann verði ófær um kl 19.00.

Á Norðurlandi er vetrarfærð, hálkublettir, hálka eða snjóþekja og sumstaðar él eða skafrenningur. Óveður er á Þverárfjalli, í Langadal og frá Hofsósi að Siglufirði. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Víkurskarði.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og sumstaðar él.  Breiðdalsheiði er ófær en þungfært  er á Öxi og út fyrir Vattarnes. Ófært er á Oddskarði.

Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert