Á Vestfjörðum er þæfingsfærð í Ísafjarðardjúpi, á Steingrímsfjarðarheiði og Dynjandisheiði en hálka eða snjóþekja á öðrum fjallvegum. Upplýsingar vantar enn um hálsana í Barðastrandarsýslu, segir í upplýsingum Vegagerðarinnar.
Á Norðurlandi er vetrarfærð, víðast hvar snjóþekja eða hálka og ofankoma. Þæfingsfærð er á fáeinum leiðum en þar er verið að hreinsa.
Vegir eru að heita má auðir á Suðurlandi og Suðurnesjum. Hálkublettir eru í Mosfellsdal og til Reykjavíkur.
Á Vesturlandi er þæfingsfærð á Borgarfjarðarbrautinni upp í Reykholt. Hálka er á Mýrum og Bröttubrekku en hálkublettir víðar. Vakin er athygli á að mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Svipað er að segja um Austurland, þar er snjóþekja eða hálka og víða ofankoma en aðalleiðir færar. Öxi er þungfær.
Á Suðausturlandi er víða nokkur hálka eða snjóþekja.