Afar brýnt að lýsa eftir Sigurði

Sigurður Einarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Sigurður Einarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Andri Karl

„Var ekki tilefnið talsvert, rannsókn á falli stærsta banka Íslands, á markaðsmisnotkun um áraskeið? Það var feikilegt tilefni, grafalvarlegt tilefni,“ sagði Björn Þorvaldsson saksóknari hjá sérstökum saksóknara um þá ákvörðun að lýsa eftir Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings.

Tekist var á um frávísunarkröfu í Al-Thani-málinu svonefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í málinu eru ákærðir, ásamt Sigurði, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson sem átti stóran hlut í bankanum. Allir eru mennirnir ákærðir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun eða hlutdeild í umboðssvikum og markaðsmisnotkun.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag fara verjendur fram á að málinu verði vísað frá dómi, meðal annars af þeirri ástæðu að sérstakur saksóknari lét í ljós afstöðu sína, án fyrirvara, í upphafi rannsóknarinnar. 

Björn flutti hins vegar mál sitt eftir hádegið og var eðlilega ósammála flestu því sem kom fram í máli verjenda. Um ummæli sérstaks saksóknara sagði hann að ekki væri hægt að finna ummæli þar sem Ólafur Þór Hauksson sagði sakborninga hafa brotið af sér. Hann bætti við að það væri fásinna að halda því fram lýst hafði verið yfir sekt sakborninga.

„Langt út fyrir sannleikann farið“

Björn sagðist hafa talið tíu frávísunarástæður í málflutningi verjenda og það væri líklega met. Hann tók þær fyrir eina af annarri. Þó ekki sé ástæða til að rekja þær allar þá má meðal annars minnast á frávísunarástæðu Sigurðar Einarssonar.

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, sagði að grundvallarréttindi hefðu verið brotin og að engu höfð. Beitt hafi verið ólögmætum aðgerðum til að fá Interpol til að gefa út handtökuskipun, svonefnda rauða eftirlýsingu.

Hann nefndi, að þegar Hreiðar Már og Magnús voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald hefði sérstakur saksóknari haft samband. Farið var fram á að Sigurður flýtti för sinni til Íslands og sagðist Gestur hafa svarað því til að Sigurður væri reiðubúinn að koma og dvelja hér á landi á meðan skýrslutöku stóð. Það var þó með þeim fyrirvara að hann yrði ekki handtekinn og settur í gæsluvarðhald. Jafnframt að hann mætti snúa til síns heima þegar skýrslugjöf væri lokið. Sigurður býr í London, og sagðist hann jafnframt tilbúinn að gefa skýrslu þar.

Sérstakur saksóknari hafnaði boðinu. „Viðbrögð sérstaks saksóknara birtust Sigurði í fjölmiðlum og á vefsíðu Interpol,“ sagði Gestur sem var harðorður í garð þess hvernig sérstakur stóð að málum. Fyrir héraðsdómi hafi því verið haldið fram að veruleg hætta væri á því að Sigurður kæmist undan handtöku fengi hann vitneskju um að handtaka væri yfirvofandi, mikilvægt væri að koma honum að óvörum svo hann kæmist ekki undan og það næðist að taka af honum skýrslu.

„Fréttir um að hann væri eftirlýstur voru samstundis birtar í fjölmiðlum á Íslandi, en einnig í öðrum löndum. Og tilvitnuð orð sérstaks saksóknara um þörfina á að geta komið Sigurði á óvart reyndust vera án nokkurs innihalds,“ sagði Gestur sem bætti við að ekkert skilyrða fyrir rauðri eftirlýsingu (e. red notice) hefðu verið fyrir hendi. „Sérstökum saksóknara var vel kunnugt um heimilisfang og dvalarstað hans. Embættið hafði verið í samskiptum við ákærða í gegnum verjanda hans daganna áður og það vissi vel að Sigurður var hvorki á flótta né með óþekktan dvalarstað.“

Skilyrðin sem Gestur nefndi fyrir rauðri eftirlýsingu eru einmitt að viðkomandi hafi verið ákærður eða sakfelldur. „Engin önnur ályktun er tæk en að embætti sérstaks saksóknara hafi vísvitandi veitt Interpol rangar upplýsingar í því skyni að hann yrði eftirlýstur. Og ég geri mér grein fyrir því að þetta eru þung orð. [...] Hann var kallaður flóttamaður í beiðninni og hins vegar sagður vera á flótta undan ákæru. Það var langt út fyrir sannleikann farið. Hann var hvorki á flótta né hafði ákæra verið gefin út á hendur honum. Hann var heima hjá sér. Og sá sem lýsti eftir honum vissi það.“

Gestur sagði ósk íslenskra yfirvalda bæði grátlega og hlægilega. Hún beri með sér hversu ótrúlega langt rannsóknaraðilar voru tilbúnir að ganga til að lýsa eftir Sigurði. Lýsingin hafi vísvitandi verið röng og geti varla hafa verið sett þannig fram nema til að uppfylla skilyrði Interpol. Hann sagði þetta ómerkilegt og andstyggilegt leikrit sem hafi valdið Sigurði gríðarlegum álitshnekki og gert honum ókleift að starfa á því sviði sem hann á reynslu og þekkingu til. „Maður sem er eftirlýstur af Interpol nýtur ekki mikils traust á þessu sviði.“

Hann sagði að með þessu hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu þeirri sem skráð er í sakamálalög. Þar segir: „Þeir sem rannsaka sakamál skulu gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur.“ Með aðgerðinni hafi verið brotið alvarlega á Sigurði og með henni reynt að ná fram niðurstöðu með aðferð sem ekki stóðst grundvallarregluna um réttláta málsmeðferð. Því eigi að vísa málinu frá.

Fráleitasta ástæðan

Saksóknari sagði þetta fráleitustu ástæðu fyrir frávísun af þeim tíu sem bornar voru upp. Hann benti á að fyrir hafi legið úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að handtaka bæri Sigurð. Þá hafi ekki aðeins þetta mál verið undir heldur fleiri sem tengdust Sigurði.

Þá sagði Björn að þó svo dómari kæmist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á Sigurði við eftirlýsinguna gæti það ekki leitt til frávísunar málsins. „Ef menn eru ranglega eftirlýstir, ætti það að leiða til frávísunar. Það er fjarstæða. Hvað ef þetta væri morðmál sem við værum að tala um?“ spurði Björn. 

Síðar sagði hann Gest gera lítið úr tilefninu. Afar brýnt hefði verið að lýsa eftir Sigurði. Nokkrir menn voru í gæsluvarðhaldi á sama tíma og bera þurfti undir hann ýmislegt. Hann hafi hins vegar verið í London og ekki hægt að ná í hann á meðan aðrir voru í varðhaldi. Það hafi haft slæm áhrif á rannsókn mála.

Sigurður Einarsson er eftirlýstur á vef Interpol, alþjóðalögreglunnar.
Sigurður Einarsson er eftirlýstur á vef Interpol, alþjóðalögreglunnar.
Sigurður Einarsson ásamt verjendum í héraðsdómi.
Sigurður Einarsson ásamt verjendum í héraðsdómi. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert