Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfðuborgarsvæðinu síðastliðinn laugardag. Matarkarfan var ódýrust hjá Bónus á 16.791 kr. en dýrust hjá Nóatúni á 20.523 kr. sem er 3.732 kr. verðmunur eða 22%.
Verslunin Iceland var með næst ódýrustu matarkörfuna en þar kostaði hún 17.154 kr. sem er 2% meira en karfan hjá Bónus. Á eftir Iceland kom Krónan með matarkörfu sem kostaði 18.059 kr. sem er 8% hærra verð en hjá Bónus. Matarkarfan hjá Fjarðarkaup kostaði 18.683 kr. og var því 11% dýrari en hjá Bónus. Eins og áður segir var matarkarfan dýrust hjá Nóatúni á 20.523 kr. Verslanirnar Nettó og Hagkaup komu þar á eftir og voru 17% dýrari en karfan hjá Bónus.
Mestur verðmunur á bönunum
Af einstaka vörum í matarkörfunni var mestur verðmunur á ódýrustu fáanlegu bönunum sem voru dýrastir á 379 kr./kg. í Hagkaup en ódýrastir á 147 kr./kg. hjá Iceland, verðmunurinn var 232 kr. eða 158%. Ekki er víst að það sé verið að bera saman banana af sama gæðaflokki, enda eru verslanirnar ekki alltaf að merkja það sérstaklega. Mikill verðmunur var einnig á rauðum 26% Gouda Góðosti sem var dýrastur á 1.799 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrastur á 1.090 kr./kg. hjá Iceland, verðmunurinn var 709 kr./kg. eða 65%.
Munar minnstu á fjörmjólkinni
Minnstur verðmunur að þessu sinni var á Fjörmjólk sem kostaði 144 kr./l. hjá Iceland og 145 kr./l. hjá öllum hinum verslununum, en er það 1 kr. verðmunur. Af öðrum vörum í könnuninni má nefna Uncle Bens Sweet & sour orginal sem var dýrast á 458 kr. stk. hjá Nóatúni en ódýrast á 359 kr. stk. hjá Bónus, verðmunurinn var 99 kr. eða 28%. Neutral svitalyktaeyðir var dýrastur á 549 kr. hjá Nóatúni en ódýrastur á 359 kr. hjá Bónus sem er 53% verðmunur.
Matarkarfan samanstendur af 48 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru, samkvæmt frétt á vef ASÍ.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Kostur Dalvegi og Samkaup-Úrval og Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Kringlunni, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Nóatúni Hringbraut og Hagkaupum Holtagörðum. Verslanirnar Kostur Dalvegi, Samkaup-Úrval og Víðir neita þátttöku í könnuninni, þar sem þeir telja það ekki þjóna hagsmunum sínum að gerður sé verðsamanburður á vöruverði í verslunum þeirra og öðrum verslunum eins og gert er í þessari könnun.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila, segir á vef ASÍ.