Stormur er nú víða um land og má búast við því að áfram verði hvasst í nótt. Snarpar vindhviður eru víða, einum suðaustanlands, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Fór vindhraðinn yfir 60 metra á sekúndu í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu í kvöld. Telur veðurfræðingur á Veðurstofunni ekki ólíklegt að snarpar vindhviður eigi eftir að fylgja storminum frá Snæfellsnesi til Austfjarða.
Lélegt skyggni vegna öskufoks
Á Suðausturlandi er hvasst og má búast við N 20-25 m/s undir Vatnajökli og Eyjafjöllum. Þar má búast við vindhviðum um og yfir 40 m/s. Skyggni á þessum slóðum, sem og annar staðar á Suðurlandi hamlast vegna sand og öskufoks, og seint í nótt má gera ráð fyrir éljagangi frá Breiðamerkursandi og til austurs, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Suðvestan og vestantil er áfram hvasst, N 18-23 m/s og vindhviður 30-35 m/s, en búast má við hvössum vindstrengjum við fjöll s.s. á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Kjalarnesi.
Óveður er á Kjalarnesi og við Akrafjall. Það eru hálkublettir á Gjábakkavegi og í sunnanverðum Hvalfirði.
Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku.
Hálkublettir og óveður er á Holtavörðuheiði.
Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja og skafrenningur á Þröskuldum. Snjóþekja og stórhríð er á Gemlufallsheiði. Hálka eða hálkublettir og éljagangur eða skafrenningur er á öðrum leiðum. Ófært og stórhríð er á Klettshás. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, einnig er ófært á Veiðileysuhálsi.
Á Norðvesturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum. Þæfingsfærð og stórhríð er á Þverárfjalli og á Vatnsskarði.
Á Norðausturlandi er hálka og skafrenningur á Siglufjarðarvegi, þæfingsfærð og stórhríð á Öxnadalsheiði og Víkurskarði.
Þungfært og éljagangur er í Dalsmynni. Ófært er á Hólasandi. Snjóþekja og stórhríð er á Mývatnsöræfum, snjóþekja og óveður á Hófaskarði og hálka og óveður á Sandvíkurheiði. Hálka og skafrenningur eða éljagangur er á öðrum leiðum.
Á Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði, í Oddskarði og á Fagradal og er beðið með mokstur, ófært er líka á Breiðdalsheiði og Öxi. Snjóþekja, hálka og stórhríð er á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Þungfært og skafrenningur á Vatnsskarði eystra. Hálka og óveður er á milli Breiðdalsvíkur og Hafnar. Snjóþekja eða hálka og snjókoma eða skafrenningur er á öðrum leiðum.
Á Suðaustur- og Suðurlandi er óveður við Lómagnúp og undir Eyjafjöllum. Hálkublettir eru frá Kvískerjum að Vík.