Magnús gleymdist í athugasemdum

Magnús Guðmundsson og Karl Axelsson.
Magnús Guðmundsson og Karl Axelsson. Morgunblaðið/Eggert

Saksóknari tók undir það með verjanda Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, að hugsanlega hefði prófarkalestur ákærunnar brugðist í Al-Thani-málinu svonefnda, en nafn Magnúsar vantar í athugasemd við ákæru. Hann sagði það þó ekki leiða til frávísunar.

Þannig er, að meðal þess sem Karl Axelsson, verjandi Magnúsar, benti á þegar tekist var á um frávísunarkröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, var sú staðreynd að þó svo Magnúsar hafi verið getið í sjálfu ákæruskjalinu vantaði nafn hans í athugasemdir með ákærunni. 

Karl sagði að sökum þessa væri ekki nokkur leið fyrir Magnús að sjá fyrir hvað hann er ákærður, þ.e. nákvæmlega hvaða verknað. Aðrir eru nefndir í athugasemdunum og hvað þeir gerðu í meintum brotum en nafn Magnúsar vantar. Hann spurði þá hvernig Magnús ætti að geta haldið uppi vörnum þegar þannig er ástatt. Hvorki sé nafn hans nefnt eða það rökstutt hvernig hann á að hafa brotið af sér. 

Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, sagði ákæruna skýra. Fjölmörg atriði sem tæpt sé á í ákærunni bíði hins vegar aðalmeðferðar þar sem þau fái efnismeðferð. Hann viðurkenndi þó að það gætu hafa verið mistök að nafn Magnúsar vantaði í athugasemdirnar við ákæruna. Hann sagði það ekki koma að sök. Ákæruvaldsins sé að sanna það sem kemur fram í ákæru, athugasemdirnar séu aðeins til fyllingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert