Norræn áfengis- og tóbaksstefna samþykkt

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir. mynd/Johannes Jansson/norden.org

Norðurlandaráð samþykkti tillögu að sameiginlegri norrænni áfengis- og tóbaksstefnu í dag.

„Það er afar ánægjulegt að tillagan skyldi vera samþykkt, því við verðum að takmarka notkun tóbaks og áfengis og draga úr heilbrigðis- og samfélagslegum kostnaði sem neyslan veldur“, sagði Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Það voru sérstaklega áfengismörkin sem menn voru ósammála um, þegar tillagan var rædd. Velferðarnefndin vill setja áfengismörkin við 0,2 prómill við akstur vélknúinna ökutækja og báta. Í dag er það eingöngu Svíþjóð sem er með 0,2 prómilla mörk. Í Noregi eru mörkin 0,2 fyrir bifreiðar en hærri fyrir báta. Í Danmörku, Finnlandi og á Íslandi eru mörkin 0,5.

Anne Louhelainen frá Sönnum Finnum í Finnlandi, sem sjálf situr í velferðarnefndinni, lagði fram gagntillögu, þar sem hún lagði til að áfengismörkin yrðu óbreytt.

„Akstur og stjórnun báta undir áhrifum áfengis er mjög umdeilt málefni og því er raunhæfara að hvert land fyrir sig ákveði eigin mörk“, sagði Anne Louhelainen, samkvæmt frétt á vef Norden.

Reyklaus Norðurlönd, algert bann við markaðssetningu áfengis til ungs fólks og áfengislás í öll farartæki eru einnig hluti af metnaðrafullri tillögu að nýrri áfengis- og tóbaksstefnu.

Mikill stuðningur er frá frjálsum félagasamtökum við tillögu velferðarnefndar og tengslanet um áfengis- og fíkniefnastefnu NordAn, sem telur 90 samtök á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum hefur stutt tillögu Norðurlandaráðs með yfirlýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert