Óveður á Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum

Hálkublettir og skafrenningur er á Holtavörðuheiði.
Hálkublettir og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. mbl.is/Gúna

Ekkert lát ætlar að verða á óveðrinu á landinu í kvöld og heldur bætir í vind og snjókomu þegar líður á. Óveður er á Kjalarnesi, Lómagnúp og undir Eyjafjöllum.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar bætir í kvöld enn frekar í vind og ofankomu um landið austan og norðaustanvert og aðstæður á vegum þar verða því afleitar, N 18-25 m/s og snjókoma og skafrenningur, og enn hvassara í vindhviðum.

Um landið norðvestanvert bætir í vind í kvöld, og fyrir miðnætti verður væntanlega komin N 18-25 m/s, hvassast á fjallvegum s.s. Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Holtavörðuheiði og Vatnsskarði. Áframhaldandi éljagangur og skafrenningur takmarkar skyggni.

Á Suðausturlandi hvessir einnig, og má búast við N 20-25 m/s undir Vatnajökli og Eyjafjöllum. Þar má búast við vindhviðum um og yfir 40 m/s. Skyggni á þessum slóðum, sem og annar staðar á Suðurlandi hamlast vegna sand og öskufoks, og seint í nótt má gera ráð fyrir éljagangi frá Breiðamerkursandi og til austurs.

Suðvestan og vestantil er áfram hvasst, N 18-23 m/s og vindhviður 30-35 m/s, en hvassar vindstrengjum við fjöll s.s. á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Kjalarnesi.

Skafrenningur á Holtavörðuheiði

Það eru hálkublettir á Gjábakkavegi og í sunnanverðum Hvalfirði. Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum. Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku. Hálkublettir og skafrenningur er á Holtavörðuheiði.

 Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja og skafrenningur á Þröskuldum. Hálka eða hálkublettir og éljagangur eða skafrenningur er á öðrum leiðum. Ófært og stórhríð er á Klettsháls. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, einnig er ófært á Veiðileysuhálsi.

Á Norðvesturlandi er hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum leiðum. Snjóþekja  og stórhríð er á Þverárfjalli og á Vatnsskarði.

Stórhríð á Öxnadalsheiði

Á Norðausturlandi er hálka og óveður á Siglufjarðarvegi, snjóþekja og stórhríð á Öxnadalsheiði og þæfingsfærð og stórhríð á Víkurskarði. Þungfært og éljagangur er í Dalsmynni. Ófært er á Hólasandi. Snjóþekja og stórhríð er á Mývatnsöræfum, snjóþekja og óveður á Hófaskarði og hálka og óveður á sandvíkurheiði. Hálka og skafrenningur eða éljagangur er á öðrum leiðum.

Á Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði, í Oddskarði og á Fagradal og er beðið með mokstur, ófært er líka á Breiðdalsheiði og Öxi. Snjóþekja, hálka og stórhríð er á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Þungfært og skafrenningur á Vatnsskarði eystra. Hálka og óveður er á milli Breiðdalsvíkur og Hafnar. Snjóþekja eða hálka og snjókoma eða skafrenningur er á öðrum leiðum. Hálkublettir eru frá Kvískerjum að Vík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert