Umferðin í októbermánuði var 0,3% meiri en í sama mánuði árið 2011 og er þetta í takt við áætlanir Vegagerðarinnar. Mestu munar um 2,3% aukningu á hringvegi í grennd við höfuðborgarsvæðið og 4,7% aukningu á Austurlandi.
Umferð dregst áfram mest saman á Vestur- og Norðurlandi eða 4,1% annars vegar og 3,7% hins vegar.
Þrátt fyrir þessa aukningu er umferðin í október sú þriðja minnsta frá árinu 2005. Aðeins árin 2005 og 2011 hefur mælst minni umferð í október. Það sem af er ári hefur umferð dregist saman um 0,4% miðað við sama tímabil árið 2011.
Mest hefur umferð dregist saman á Vestur- og Norðurlandi eða 3,2% og 2,6%. Umferð um Austurland hefur aukist mest, hlutfallslega eða 7,3%, samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar.
Horfur út árið 2012 hafa ekki breyst frá því að ágústtölur lágu fyrir. Áfram er gert ráð fyrir svipaðri umferð og á síðasta ári. Nú er gert er ráð fyrir að umferðin í nóvember að verði um 0,6% minni og umferðin í desember um 6% meiri en á síðasta ári. Ástæðan fyrir að spáð er svo mikilli aukningu í desember er sú að á síðasta ári var umferðin í desember óvenju lítil.