Enginn árangur varð á fundum hjá ríkissáttasemjara í dag í kjaradeilu LÍÚ og sjómanna. Sjómenn höfnuðu kröfum útvegsmanna um að tillit verði tekið til aukinna álaga stjórnvalda á útgerðina vegna veiðigjalda.
Fundinn í dag sátu Alþýðusamband Vestfjarða, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna, auk útvegsmanna.
Fulltrúar sjómanna höfnuðu einnig að tekið verði tillit til aukins kostnaðar vegna hækkunar olíuverðs og annars. Í fréttatilkynningu frá LÍÚ segir að í núverandi kjarasamningum sé ekki gert ráð fyrir greiðslum veiðigjalda. Þannig sé útgerðinni gert að greiða laun af þeim hluta aflaverðmætisins sem ríkið tekur til sín í formi veiðigjalda. Slíkt fyrirkomulag er ekki réttlætanlegt að mati útvegsmanna.
Niðurstaða samningafundarins var að samningaviðræðurnar væru árangurslausar í skilningi laga um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem segir: „Þá er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara."
Hlutaskiptakerfi útvegsmanna og sjómanna
Launakerfi sjómanna og útvegsmanna, hlutaskiptakerfið, byggist í meginatriðum á skiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða. Einnig koma til ýmsar aðrar greiðslur auk þess sem sjómönnum eru tryggð lámarkslaun.
„Hlutur sjómanna af aflaverðmæti og önnur laun á fiskiskipum er um 31,5% af brúttótekjum útgerðar að meðaltali. Með launatengdum gjöldum og öðrum kostnaði nemur heildarlaunakostnaður útgerða vegna sjómanna um 37% af brúttótekjum. Þetta eru meðaltöl fyrir fiskiskipaflotann samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, í ritinu Hagur veiða og vinnslu 2010. Aflaverðmætið ræðst af söluverði aflans til þriðja aðila eða af samningum á milli útgerða og áhafna þegar sjávarútvegsfyrirtæki vinnur eigin afla eða kaupir afla af skyldum aðila. Samningar útgerðar og áhafna þurfa að uppfylla ákveðin viðmið samkvæmt lögum og kjarasamningum.
Launahlutfallið er að mjög mismunandi eftir útgerðarflokkum, stærð skipa, veiðarfærum, mannafjölda, aukahlutum o.fl.
Þegar aflahlutur sjómanna er reiknaður er fyrst fundið svokallað skiptaverð sem getur verið á bilinu 70% til 80% af heildaraflaverðmæti. Af því reiknast skiptaprósentan sem er mismunandi eftir stærð skipa, veiðarfærum, fjölda manna í áhöfn og greiddum aukahlutum.
Skiptaverð tekur breytingum í samræmi við olíuverð á alþjóðlegum markaði á bilinu 143.00 USD/tonn t.o.m. 305,00/tonn USD. Verðhækkanir á olíu umfram 305 USD falla á útgerðina. Í október 2012 var viðmiðunarverð olíu 978 USD/tonn, ríflega þreföld efri mörk olíuverðsviðmiðunar skiptaverðs samkvæmt kjarasamningum. Sá kostnaður sem útgerðin ber utan skipta nemur um 15 milljörðum króna miðað við heilt ár.
Frá síðustu kjarasamningum í janúar 2009 hefur tryggingagjaldið hækkað mikið nemur kostnaður vegna þess um 1,4 milljörðum króna á ári.
Kolefnisgjald var fyrst lagt á tímabundið árið 2010 og hefur síðan tvöfaldast og er nú ótímabundið. Áætlað er að gjaldið nemi um 1.6 milljörðum króna á ári.
Veiðigjöld var margfölduð með lögum númer 74/2012 um veiðigjöld. Hækkunin verður innleidd í áföngum og er áætlað að gjöldin nemi um 14-15 milljörðum króna á þessu fiskveiðiári, en hefðu lögin verið að fullu komin til framkvæmda næmu þau yfir 20 milljörðum. Að auki kemur til hækkun ýmissa annarra kostnaðarliða.
Samtals nema framangreindar kostnaðarhækkanir yfir 30 milljörðum króna á núverandi fiskveiðiári og leggjast þær alfarið á hlut útgerðarinnar. Ætla má að aflaverðmæti síðasta fiskveiðiárs hafi numið yfir 170 milljörðum.
Í núverandi kjarasamningum er ekki gert ráð fyrir greiðslum veiðigjalda. Þannig er útgerðinni gert að greiða laun af þeim hluta aflaverðmætisins sem ríkið tekur til sín í formi veiðigjalda.
Krafa útvegsmanna er að við gerð nýrra kjarasamninga verði tekið tillit til stóraukins kostnaðar útgerðar áður en aflaverðmæti er skipt á milli sjómanna og útgerða,“ segir í fréttatilkynningu frá LÍÚ.